„Við þurfum að skoða hvernig græni herinn rís upp úr öskunni með ljóstillífun,“ segir Jakob Frímann Magnússon sem hyggst endurreisa umhverfisherinn sem hann og Stuðmenn stofnuðu fyrir 20 árum síðan.

„Verkefnið er að grænka og vænka, endurreisa það sem hefur látið á sjá,“ heldur Jakob áfram en vill þó ekki gangast við því að vera hershöfðingi Græna hersins. „Það er annar maður yngri og vaskari en ég kominn í það hlutverk. Einar Bárðarson, höfuðsmaður plokksins á Íslandi, hefur tekið grænan her undir sinn væng. Á meðan Einar stýrir plokkher sínum með vinstri hendi þá stýrir hann grænum með þeirri hægri, sem er að gróðursetja tré og plöntur, mála þar sem þörf gerist, og fjarlægja járnrusl og óhroða.“

Jakob Frímann segir að herráðið hafi komið sér upp fimm ára áætlun en fyrsta verk hersins eftir endurkomuna verður Hveragerði á sunnudaginn þar sem á að sá fræjum og planta trjám við stíg sem liggur frá grunnskólanum að listasafninu. „Við vonumst til að þessir 1500 sem skráðu sig í græna herinn á sínum tíma séu allir sprellifandi og sprækir og tilbúnir að stíga fram,“ segir Jakob kíminn. „En ef ekki þá eru 15.000+ plokkarar um allt land sem Einar er búinn að virkja og koma í sínar pípur,“ segir hann og bætir við að þetta sé tilvalið tækifæri til að eiga góða stund með fjölskyldunni í góða veðrinu og fá sér svo ís á leiðinni heim.

Græni herinn var stofnaður fyrir tíma plokksins og þeirrar miklu umhverfisvitundar sem nú er, mætti segja að hann hafi  verið á undan sinni samtíð? „Já, það mætti segja að hann hafi verið snemma í þessari sveiflu. En það var ekki vandamál að fá fólk til liðs við sig þá,“ segir Jakob. Meðal þess sem græni herinn skildi eftir sig var að tyrfa Fossvoginn og planta yfir milljón plöntum og trjám þar. Upphaflega átti starfsemin bara að vera einu sinni í viku en vatt svo fljótt upp á sig og stóð yfir í fjóra daga í viku í fjóra mánuði samfleytt. Jakob viðurkennir að það hafi stundum verið slítandi. „Ég þurfti að vera með í torf- og grjótburði á daginn, gefa svo súpu í hádeginu, síðdegisskemmtun og hressingu, og svo kvöldgrill þar sem voru afhent viðurkenningaskjöl, og miðar á tónleikana þar sem eftir var ársins, svo fékkstu alklæðnað og húfu, síðan að mæta í hljóðprufu, síðan giggið til fjögur um nóttina, síðan gera upp og ganga frá og vera kominn í sængina hálf sex. Svo aftur á fætur um níuleytið til að vera mættur á næsta stað. Ég fann aðeins fyrir þessu á mínum hasarkroppi eftir fjóra og hálfan mánuð,“ segir Jakob og glottir við tönn.

Jakob hvetur alla sem vettlingi geta valdið að mæta klukkan 14:00 á sunnudaginn við stíginn frá grunnskólanum í Hveragerði til að taka þátt. „Við fögnum sérstaklega fjölskyldum og fólki sem kemur hjólandi,“ segir hann að lokum.

Guðmundur Pálsson ræddi við Jakob Frímann Magnússon í Síðdegisútvarpinu.