Íslenskir aðdáendur Marvel-teiknimyndasöguheimsins geta tekið gleði sína því sögurnar eru loksins að koma út á íslensku. Bjarni Gautur Eydal Tómasson skrapp til New York og tryggði sér réttinn að útgáfunni.
Það má með sanni segja að Marvel-heimurinn hafi tröllriðið öllu undanfarin ár en um þennan heim og persónurnar sem þar búa hafa verið skrifaðar bækur, blöð og gerðar kvikmyndir í áratugi. Nýjasta Marvel-myndin, Spiderman: Far from home, sem er að miklu leyti tekin upp í Tékklandi, nýtur gífurlegra vinsælda og var stærsta myndin í bíóhúsum í Bandaríkjunum um síðustu helgi. Aðdáendur þessa stórbrotna söguheims á Íslandi fagna því þessa dagana að myndasögurnar eru að koma út í fyrsta skipti á íslensku. Bjarni Gautur Eydal Tómasson náði samningi við Marvel-teiknmyndasögurisann og hefur nú þegar gefið út tvær bækur um græna vöðvabúntið Hulk og prakkarana í X-men. Hann var sagði frá útgáfunni í Morgunútvarpinu á Rás 2.
Bjarni hafði áður sýnt áhuga á að gefa út bækur DC um Leðurblökumanninn og reynt að fá réttinn til að þýða MAD magazine á íslensku en í bæði skiptin gripið í tómt því engin svör fengust. Það var þó annað upp á teningnum þegar hann hafði samband við Marvel.
Drifinn áfram af hugsjón
„Ég var staddur í New York þegar ég áttaði mig á að DC er í Kaliforníu svo ekki var hægt að funda með þeim þar, en Marvel er í New York svo ég freistaðist til að hafa samband. Þau svöruðu um hæl, buðu mér að kíkja í heimsókn og tala við sig.“
Niðurstaðan lá fljótlega ljós fyrir, Marvel vildi kýla á þetta. „Ég talaði fram og til baka við þau í einhvern tíma en loks fékk ég sendan 60 blaðsíðna samning til að lesa yfir og undirrita.“ Bjarni Gautur segist hafa ítrekað við Marvel að það væri morgunljóst að ekki væri mikill peningur í útgáfu sem þessari á Íslandi enda markaðurinn lítill og fáir sem töluðu málið. „Ég lét þau vita að ég er í þessu hugsjónarinnar vegna. Maður er ekki í þessum bransa til að græða pening heldur af því að maður hefur áhuga á myndasögum og því að miðla þessum sögum til næstu kynslóða.“
Í dag eru börn jafnt sem fullorðnir að sækja mikið af afþreyingu sinni í snjallsímum og tölvum. Ætli unga kynslóðin í dag lesi myndasögur? „Þau vilja gera það en þau hafa ekki haft möguleikann,“ útskýrir Bjarni. „Ég á lítinn frænda sem hefur verið að kaupa sér myndasögur á ensku síðustu þrjú árin. Hann kann ekki orð í ensku svo hann skoðar bara myndirnar og þegar hann sagði við mig um daginn að hann óskaði þess að geta lesið þetta líka þá ákvað ég að gera eitthvað í þessu.“
Las myndasögur á sænsku sem barn
Bjarni ólst sjálfur upp í Svíþjóð og öfugt við íslenska frændann bjó hann við þann munað að geta lesið sögurnar á sænsku. Hann segir það vera góða æfingu fyrir barn sem ekki er byrjað að lesa doðranta að skoða myndasögur og hvetur foreldra til að benda börnum sínum á þær. „Það er nefnilega stærra stökk fyrir barn sem ekki les mikið að fara beint í Harry Potter sem er mörg hundruð síðna bók með engum myndum. Myndasögurnar eru góður millivegur, krakkarnir þekkja myndirnar og geta þarna glöggvað sig á því hvernig sagan af uppáhalds ofurhetjunni hófst.“
Hefði fyrstur manna hoppað af gleði yfir svona útgáfu
Síðustu helgi var blásið til útgáfuhófs í Spilavinum í tilefni af fyrstu útgáfum Bjarna. Þar var meðal annars haldin teiknisamkeppni og kom það Bjarna skemmtilega á óvart hve margir krakkar tóku þátt og jafnframt hve fær þau voru í að teikna ofurhetjurnar. „Ég var ekki dómarinn en það voru svo margir sem mig langaði að gefa verðlaun ef ég hefði fengið að ráða.“ Hann segir jafnframt ánægjulegt að sjá hve margir fullorðnir eru spenntir fyrir útgáfunni en hann skilur það líka vel. „Ef það væri einhver annar en ég að gefa þetta út væri ég öskrandi af gleði,“ segir hann að lokum og skellihlær.
Allt viðtalið við Bjarna Gaut má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.