Efnt var til svokallaðrar Báramótabrennu í miðborg Reykjavíkur í kvöld. Þar eyddi Bára Halldórsdóttir, með viðhöfn, upptökum sínum af samtali og fyllerísrausi þingmanna á barnum Klaustri frá síðasta vetri. Persónuvernd hafði komist að þeirri niðurstöðu að með upptökunni hefði Bára brotið gegn persónuverndarlögum
Kröfu Klaustursmanna um að Bára yrði sektuð var vísað frá en þess í stað var henni gert að eyða upptökunni. Sú niðurstaða á eingöngu við um Báru en ekki aðra sem gætu haft upptökurnar undir höndum. Lögfræðingar Báru sáu um að skrásetja viðburðinn í kvöld.
Bára segir það hafa verið hugmynd vinkonu sinnar að eyða efninu með viðhöfn. „Að gera eitthvað skemmtilegt úr frekar leiðinlegu máli,“ sagði Bára í fréttum sjónvarps klukkan tíu. Hún segist virða úrskurð Persónuverndar sem komst að þeirri niðurstöðu að henni bæri að eyða upptökunum, en það sé svolítið gamaldags að þurfa að eyða upptökum sem vitað er að gengur manna á milli á netinu.