Einn af uppátækjasömustu hrekkjalómum landsins er án efa Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður sem meðal annars hefur skrifað bók um hrekki. Logi segir að á baki góðs hrekks eigi að hvíla vinátta.

Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson er annálaður hrekkjalómur og alræmdur innan síns vinahóps og meðal vinnufélaga fyrir svæsna hrekki og fjörugt hugmyndaflug þar að baki. Fyrir fáeinum árum gaf hann út Handbók hrekkjalómsins þar sem hann leiddi lesendur í allan sannleikann um hrekki, hvað má og hvað ekki og sagði sögur af þeim hrekkjum sínum sem hann er hve stoltastur af. Logi sagði Snærós Sindradóttur í Sumrinu frá því hvað góður hrekkur innihéldi.

„Góður hrekkur þarf að innihalda vináttu, það þarf að vera ákveðin fegurð í honum. Þú átt ekki að hrekkja til að meiða eða særa, þú átt að hrekkja af því það er sniðugt,“ segir Logi Bergmann. „Til dæmis er góður hrekkur, dæmigerður hrekkur, ef þú ert að vinna með einhverjum. Þið sitjið saman hlið við hlið, á hverjum morgni setur hann bíllyklana á sama stað, þú ferð út í bílinn hjá honum og stillir útvarpið á kristilega útvarpsstöð. Svo gerir þú þetta á hverjum degi og hann heldur að hann sé að verða geðveikur. Þú meiðir engan með þessu, þetta er bara fyndið. Eða þá að færa bílinn hans, fyrst bara um tvö stæði. Það er mjög skemmtilegur tími þegar fólk heldur að það sé að verða bilað,“ segir Logi Bergmann um góðlátlega hrekki.

Logi vill meina að hann hafi náð að temja og þróa í sér hrekkvísina og kunni að setja sér mörk. „Það eru margir hrekkir sem ganga of langt og maður þarf að kunna ákveðna línu. Það er hrekkur einn sem mér finnst frábær og var gerður í Bretlandi. Þar voru menn að steggja vin sinn og sá drakk frekar illa, fór oft í „blakkát“ og það var mikið vesen á honum. Eftir steggjunina settu þeir gifs á hann og lugu því til að hann hafi fótbrotnað. Sem var mjög fyndinn hrekkur nema að þeir sögðu honum ekki frá þessu fyrr en hann var búinn að gifta sig. Þannig að hann gifti sig á hækjum,“ segir Logi og bætir því við að þarna hafi orðið algjör vinslit milli vinahóps brúðgumans og sjálfrar brúðarinnar. „Það er sem sagt lína sem maður á að hugsa, „Nei, við skulum stoppa hérna“,“ segir Logi.

Snærós Sindradóttir ræddi við Loga Bergmann Eiðsson um vinnustaðahrekki meðal annars og lét í kjölfarið samverkamann sinn úr Sumrinu, Atla Má Steinarsson finna fyrir því. Viðtalið og hrekkinn má sjá með því að smella á myndina hér efst í fréttinni.