Tónleikaröð Bjarkar Guðmundsdóttur, Cornucopia, í listamiðstöðinni The Shed í New York vekur mikla athygli þessa dagana og hefur fengið lofsamleg viðbrögð. Cornucopia er sannkallað sjónarspil þar sem gerðar eru meiriháttar tilraunir með hljóð og mynd. Freyr Eyjólfsson fór á Cornucopiu-tónleika.


Freyr Eyjólfsson skrifar:

Sirkusinn er kominn í bæinn. Björk og hennar fríða föruneyti, tónlistar- og tæknifólk hefur sett upp sýningu sem á sér enga líka. Cornucopia er eins og ferðalag inn í framtíðina,  ferðalag inn í goðsögulegan draumaheim. Cornucopia, allsnægtarhornið, eins og það útleggst á íslensku, er enginn venjuleg sýning, hér er teflt saman ólíkum listgreinum, ólíku fólki sem galdrar fram hljóð og sjónbrellur – allsnægtir fyrir öll skynfæri. Listafólk, hönnuðir, og sérfræðingar á ýmsum sviðum, undir leiðsögn Bjarkar, takast á við þá áskorun að búa til eitthvað alveg nýtt – sem enginn hefur séð áður. Cornucopia er því fyrst og fremst áskorun. Áskorun við nýja tækni, hvað sé hægt að gera með nýrri stafrænni tækni til þess að útvíkka tónleika- og leikhúsformið, nýtt hús, nýja tíma, áskorun um að brjóta formið með hverju nýju verki - en kannski er fyrst og fremst verið að skora á áhorfandann – áskorun til okkar. Því Cornucopia er ákall um breytingar. Rauð viðvörunarljós um alvarlegt ástand í loftlagsmálum.

En þetta er samt afar margslungin sýning sem hefst með Hamrahlíðarkórnum, þar sem hann stígur fram og syngur Ísland farsælda frón. Við erum dregin norður, alla leið til Íslands, þegar landið var fagurt og frítt, og fannhvítir jöklana tindar, himininn heiður og blár og hafið var skínandi bjart. Hið gamla ættjarðarljóð Jónasar hefur ef til vill öðlast nýja merkingu á okkar tímum, þegar jöklarnir eru óðum að hverfa og hafið er orðið grátt af plastmengun. Hvar er þín fornaldar frægð? Frelsið og manndáðin best? syngur unga fólkið og horfir á okkur spurnaraugum. Eftir áhrifamikla innkomu Hamrahlíðarkórsins berast furðuhljóð úr öllum áttum, hljómburðurinn á þessum tónleikum er eitthvað sem ég hef aldrei áður kynnst. Hér hafa verið gerðar merkilegar tilraunir með ýmis konar hljóm og hljóðkerfi sem ég get því miður ekki gert nægileg skil í einum útvarpspistli. En þetta eru djúp, skörp og skýr, víðóma hljóð: fuglasöngur, flautuleikur, raftónlist. Síðan dragast leiktjöldin frá og þá opnast þessi mikli töfraheimur þar sem þrívíddartæknin er allsráðandi í sviðshönnun, myndböndum, í ljósum og leiktjöldum. 

Cornucopia er eins konar sjálfstætt framhald af verkinu Utopiu sem kom út fyrir tveimur árum. Efnisskráin er því mest megnis efni af þeirri plötu, en ýmis eldri lög dúkka upp í nýjum búningi. Flautuhljómveitin Viibra sem lék með Björk á Utopiu er með henni á þessum tónleikum og leikur hér stórt hlutverk. Cornucopia er ákveðið svar við úreltum og ofbeldisfullum karlaheimi og býður upp kraftmikinn og kvenlegan goðsagnaheim – þar sem frumöfl náttúrunnar eru í fallegu samspili við nýjan framandi tölvuheim. Þessar hugmyndir eru undirliggjandi í tónlistinni og sviðsmyndinni. Fallegt og draumkennt samspil hins lífræna, söngurinn, harpan, rennandi vatn, trommur og flautuleikur í kvenlegum náttúruheimi – kallast á við rafræna og taktfasta tónlist. Þessi stóra samsuða í tónlistinni framkallar mikinn og myndrænan töfraheim á sviðinu. Það er því mikið að gerast, öll skynfæri eru hreinlega þanin allan tímann í þessari fjórvíðu sýningu, stundum brestur á með stormi og snjókomu, en jafnhratt er okkur hent inn í framandi og dulúðlegan kynjaskóg.

Cornucopia er ótrúlega metnaðarfullt og dýrt verkefni sem hefur tekið langan tíma að skapa og undirbúa. Mér hefur hlotnast sá heiður að sjá allflestar tónleikaferðir Bjarkar. Þessir tónleikar eru ólíkir öllu því sem hún hefur áður gert. Hér fetar hún nýjar brautir en auðvitað byggist þetta allt saman á því sem hún hefur verið að gera í tónlist og náttúruvernd síðustu ár. Björk hefur sagt að Cornucopia sé hennar metnaðarfyllsta verk til þessa. Það var valið sem opnunarverk í hinum stóra sal menningarmiðstöðvarinnar The Shed, sem er mjög óvenjulegt og tæknilegt leikhús. Húsið sjálft er á hjólum, það er hægt að stækka það og minnka það með álíka mikilli orku og það tekur að keyra áfram einn Toyota Prius-bíl. Sem sagt – sannkallað undravirki - sem Björk nýtir sér til hins ýtrasta  með mjög flókinni og tæknilegri sýningu – sem ég efast um, því miður, að hægt sé að setja upp á Íslandi, með svipuðum hætti.

Það er áhrifamikið þegar hin unga sænska baráttukona Greta Thunberg, sem hefur staðið fyrir loftlagsverkföllum skólakrakka, birtist á tjaldinu og talar um ástandið í loftlagsmálum. „Þið verðið að grípa til aðgerða, annars er engin von. Þið eruð að ræna framtíðinni af börnum ykkar“ segir hún. Og það er kannski einmitt þetta sem bindur alla sýninguna saman – þessi hugsjón um betri heim og að bregðast verði við loftlagsvandanum með róttækum hætti. Lifum í framtíðinni er ein af þeim setningum sem er varpað upp á skjá. Tökumst á við framtíðina. Reynum að notfæra okkur nýja tækni til þess að kljást við stóru vandamálin sem við stöndum frammi fyrir og búum til útópíu. Nýjan heim. Cornucopia undirstrikar að þetta sé vel hægt. Það er hægt með nýrri tækni og framsæknum hugmyndum, að segja skilið við hið gamla og úrelta, og búa til eitthvað algjörlega nýtt og fallegt.