Þegar ákveðið var, fyrir einu og hálfu ári, að sjötugsafmæli Nató yrði haldið í London ætlaði breska stjórnin að nota tækifærið til að sýna styrka stöðu sína í alþjóðasamfélaginu. Bretlandi yrði þá gengið úr Evrópusambandinu. Bretum varð þó ekki mikið úr þessu tækifæri, Brexit enn ekki afstaðið og þingkosningar í næstu viku. Í staðinn stal Emmanuel Macron Frakklandsforseti leiðtogasenunni í hvössum orðaskiptum við Bandaríkjaforseta.
Eins og undanfarin misseri markaðist leiðtogafundur Nató af glímunni við óútreiknanlegan Bandaríkjaforseta, sem skyggir um leið á umræður um framtíð afmælisbarnsins.
Afmæli með ,,heiladauðu“ afmælisbarni
Sjötugsafmæli í skugga þess að einn helsti gesturinn hafði kallað afmælisbarnið ,,heiladautt“ hljómar eins og uppskrift að vandræðalegri afmælisveislu. Þó afmælisbarnið sé stofnun og geti því þannig séð ekki móðgast höfðu ýmsir boðsgestir tekið ummælin óstinnt upp.
Ögrandi ummæli Macrons sneið til Bandaríkjanna
Í viðtali í haust notaði Emmanuel Macron Frakklandsforseti þetta orð, ,,heiladautt,“ um Nató, Atlantshafsbandalagið. Reyndar var Macron ekki að lýsa frati á Nató, heldur að Nató, sem hefði glatað bandarískri forystu, væri ,,heiladautt.“ Ummælin beindust því gegn Bandaríkjunum, ekki Nató. Nató skorti strategíska og pólitíska stefnu. Nú þyrfti að endurmeta hlutverk Nató í ljósi þess hversu mikið, öllu heldur lítið, Bandaríkin legðu sig fram í Nató.
Macron orðaði þarna nokkuð skarplega þetta umhugsunar- og umræðuefni síðan Donald Trump varð Bandaríkjaforseti. Það heyrist fátt frá honum um Nató nema gagnrýni á Nató-lönd, sem skila ekki sínu til Nató, það er að tveimur prósentum landsframleiðslu hvers lands sé varið til hernaðarútgjalda.
Vandinn er Bandaríki sem ekki ræða við Nató
Þetta hefur vissulega heyrst úr Hvíta húsinu í áratugi. Hið nýja er, eins og Macron hnykkti á, að Bandaríkin taki ákvarðanir án þess að ræða við Nató-ríkin. Það vantaði algjörlega strategíska samhæfingu Bandaríkjanna og Nató, sagði Macron.
Ögrun og oft má satt kyrrt liggja
Orð Macrons ollu kannski ekki jafnmiklu írafári í Nató og Sýrlands-ákvörðun Bandaríkjaforseta en það hrikti þó víða í. Angela Merkel Þýskalandskanslari, sem hefur sannarlega látið í ljós vanþóknun á ýmsum ákvörðunum og ummælum Trumps, sagðist ósammála Macron. – Og víða heyrðist líka að oft mætti satt kyrrt liggja.
Orð Macrons bergmáluðu í afmælisveislu Nató í vikunni
Orð Macrons um bandalagið heiladauða bergmáluðu í tveggja daga afmælisveislu Nató hér í London. Þá líka þegar Macron og Trump sátu á gullstólum á sameiginlegum blaðamannafundi. Trump byrjaði á að hnykkja á þessu með framlagið, allt á uppleið og Nató líka stórbatnað undanfarin þrjú ár, undirskilið að það væri allt honum að þakka.
Macron veit hvað Trump kann að meta og hrósaði honum í bak og fyrir um framlögin. En hann rakti rækilega skoðun sína, það vantaði strategíska umþenkingu í Nató. Á endanum var Trump nóg boðið. Bandaríkin hefðu fullt af bardagamönnum Ísis, íslamska ríkisins, undir lás og slá og þeir væru flestir frá Evrópu.
Staðreyndir og kaldhæðni
,,Langar þig kannski að fá aftur góða bardagamenn Ísis,“ sagði Trump. Macron gæti tekið alla sem hann vildi. Macron tók ekki undir grínið, þetta væri alvörumál, vissulega bardagamenn frá Evrópu en staðreyndin sú að bardagamennirnir væru flestir úr heimshluta átakanna.
Þarna þótti Macron setja ærlega ofan í við Trump og leiðrétti hann í þokkabót um staðreyndir. Trump fór þá að ræða skatt Frakka á bandarísk tæknifyrirtæki og þó fyrirtækin styddu hann sjálfan ekki, sagði hann, gætu Bandaríkjamenn svarað þessu með skatti á frönsk vín – Nató alveg óviðkomandi en Trump virtist þarna áhugasamari um að ná sér niðri á Macron en rökræða Nató.
Trump fannst nóg komið af blaðamannafundum
Þessi orðaskipti forsetanna og svo myndband þar sem Macron og Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada virðast gera grín að Trump hafa orðið fundarfréttirnar. Og svo að Trump afboðaði sig á síðasta blaðamannafundinn, nóg komið af slíkum fundum, sagði hann.
Hliðaráhrif af Trump: orkan sem fer í hann og ekki umræður um framtíð Nató
Þó afmælisbarnið sé komið á lögboðinn eftirlaunaaldur er ekkert slíkt í boði en já, það er höfuðverkur að eiga við óútreiknanleg Bandaríki Trumps. Hvort sem Trump á eftir ár eða fimm ár í embætti verður hann varla eilífur þar. Fimm ár gætu orðið Nató erfið. En með óútreiknanlega forsetann er það eins og Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Nató sagði í Norræna húsinu í sumar: það mætti beina athyglinni að gjörðum Bandaríkjanna, ekki aðeins orðum Trumps. – En já, þetta var reyndar áður en Trump brást bandamönnum Nató, Kúrdunum.
Afmælisbarnið átti auðveldari æsku með einn kláran óvin í kalda stríðinu. Ein hliðaráhrif af Trump er öll orkan sem fer í að eiga við hann. Og sú staða virðist þá drepa á dreif nauðsynlegum umræðum um framtíð Nató.