Delluferðin eftir Sigrúnu Pálsdóttur er æsileg og viðburðarík söguleg skáldsaga segir Björn Þór Vilhjálmsson gagnrýnandi. „Það hvernig Sigrún vefur þræði sem þessa inn í spennandi og grípandi frásögn skáldverksins er aðdáunarvert.“
Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:
Í upphafi nýútkominnar skáldsögu Sigrúnar Pálsdóttur, Delluferðinni, fylgist lesandi með samdrykkju sem æðsti embættismaður konungs á Íslandi boðaði til. Efni fundarins var landflótta stúlka, Sigurlína Brandsdóttir, og íslenskur forngripur sem skyndilega var lentur inni á Metropolitan safninu í New York, keyptur að sögn fyrir fimmtán þúsund dali, upphæð sem samsvaraði öllu sparisjóðsfé þá tiltölulega nýtilkomins Landsbanka Íslands, en bankinn var stofnaður 1886 og fundurinn á sér stað ellefu árum síðar, eða 1897. Spurningarnar sem brenna á mektarmönnunum sem fundinn sitja eru smitandi, lesandi getur ekki annað en verið forvitinn, „Metropolitan safnið í New York“, dýrmætur „forngripur“ í fórum „landflótta stúlku“. Efnisatriðin gætu vart verið æsilegri og skáldverkið sem í hönd fer hikar hvergi við framsetningu á atburðarásinni sem þarna er ýjað að, og æsileika hennar, allt sem lofað er fá lesendur beint í æð – og tengist það úrvinnslu Sigrúnar á tiltekinni bókmenntagrein, jafnvel greinaskilgreiningu sjálfrar skáldsögunnar, en að þessu atriði langar mig til að koma að aftur eftir örlitla stund. Fyrst langar mig samt til að dvelja aðeins við sögusviðið og frásögnina sjálfa og þau viðfangsefni sem mér sýnist að Sigrún sé að fást við.
Frá sveitabænum í stórborgina
Burt séð frá ljómanum sem stafaði af heimsborginni New York um aldamótin 1900, en þá var hún þegar orðinn stærri en París og skammt var í að hún myndi slá London við hvað umfang og stærð varðar, þá er kannski rétt að staldra við þá staðreynd að á umræddum fundi í upphafi sögunnar er stúlka til umræðu. Valdamennirnir eru auðvitað allir karlar en þeir eru að funda um konu, og eitthvað má nú ætla að hafi gengið á til að kona lendi inni á sjóndeildarhring þeirra miðjum – til að valda svona miklum vandræðum skyldi maður ætla að til þyrfti aðra valdamanneskju, eða einhvers konar athafnamann, athafnaskáld kannski sem farið hefur á límingunum, verið sé að innkalla söluna á norðurljósunum til dæmis? Og ef ekki athafnaskáld, þá að minnsta kosti karlmann, en nei, söguhetja verksins, sú sem öllu hefur komið í bál og brand, Sigurlína, er dóttir Brands Jónssonar, mannsins sem ráðinn hefur verið til að sinna fornminjasafninu sem hýst er á annarri hæð Alþingishússins.
Menningarlegt kapítal í tonnavís fylgir þeirri stöðu en allmikið minna af raunverulegu kapítali þannig að þó að fjölskyldan tilheyri „fína fólkinu“ í Reykjavík berst hún í ákveðnum bökkum, ekki eru til dæmis til nægir peningar til að senda nær uppkomin börnin til útlanda. En áhersla sögunnar á Sigurlínu, að hún sé aflvaki og ástæða fundarins, gefur tóninn fyrir það sem er í grunninn femínískt verk, enda eflaust fáir meðvitaðri en höfundur bókarinnar um þá staðreynd að konur gegna sjaldnast lykilhlutverki í þeim sögum sem sagðar voru á nítjándu öld, né heldur sögunum sem sagðar eru af þeirri öld og fortíðinni almennt, en þess má geta að Sigrún Pálsdóttir er með doktorspróf í sagnfræði frá Oxford og hefur getið sér gott orð fyrir rannsóknir á sínu sviði.
Eins og gefið var til kynna með því að nefna Metropolitan safnið eru sögusviðin tvö, Ísland og Bandaríkin, New York nánar tiltekið, með að vísu stuttri millilendingu í Skotlandi. Reykjavík birtist í skemmtilega framandgerðri mynd fyrir nútímalesendum, þetta er þorp að verða bær, íbúar taldir í þúsundum, og þegar komið er handan við Skólavörðuholt er maður kominn vel á leið í sveitina. Ísland er eitt fátækasta og vanþróaðasta land Evrópu og ýmsir voru á þessum tíma farnir að velta því fyrir sér hvort þjóðin væri kannski dæmd til eilífrar eftirsetu þegar að þeim gríðarlegu framförum sem tröllriðið höfðu Evrópu á umliðinni öld kom, en ein breyting hafði þó verið að eiga sér stað, hægt og sígandi. Ísland var tiltölulega nýorðinn áfangastaður ferðamanna, fjarri því túristaparadísin sem við þekkjum í dag, en samt. Uppúr miðri nítjándu öld varð Ísland skipulagður áfangastaður gufuskipa, einkum að sumarlagi, hægt var að stóla á dagsetningar og verðlag fyrir farmiðann var viðráðanlegt mörgum útlendingnum. Samhliða þessu höfðu þýðingar á Íslendingasögunum færst frá latínu yfir á ensku og á síðari hluta nítjándu aldar átti sér stað umbylting á því sviði. Við vorum ekki komin með Björk og Sigur Rós en við höfðum Gunnar á Hlíðarenda og Njálsbrennu, og það til viðbótar við áhuga manna á jarðfræði landsins og afskekktum og frumstæðum þjóðháttum, leiddi til fyrstu túristabylgjunnar. Þetta er allt mikilvægt fyrir söguna því það er í krafti erlendrar ferðamennsku sem Sigurlína bæði leggur land undir fót og gerir það með forngripinn verðmæta undir höndum.
Forngripurinn sjálfur og fimmtán þúsund dollararnir eru ennfremur staðfesting þess sem safnstjóri Metropolitan safnsins segir í fyrsta sinn sem honum bjóðast kaupin: „You need history to turn old gold into priceless treasure“. Þessi orð eru jafnframt þungamiðja sögulegrar vitundar skáldsögunnar, menningarleg mótun í krafti sagnaarfsins gerði staði á Íslandi merkingarbæra, og Ísland sem land að þjóð með menningu og sögu. Hér er um „líftaugina“ frægu að ræða, svo vitnað sé í Sigurð Nordal, sem tengdi íslenskan nútíma við gullöld landnámsins og eftirköst þess. Það hvernig Sigrún vefur þræði sem þessa inn í spennandi og grípandi frásögn skáldverksins er aðdáunarvert, hér er glímt við í senn inngöngu íslensku þjóðarinnar inn í nútímann í krafti fortíðar sinnar, og myrkar hliðar þessa sama nútíma.
Heimsflakk og greinaflakk
Kemur þar að sögusviðunum tveimur og tímasviðunum sem ríma ekki alveg saman, og ber þess þá jafnframt að geta að sögumaður er býsna frjáls, fimur og flakkandi, og enda þótt Sigurlína sé mikilvægasta vitundarmiðjan ber sögunni niður víða í mannlífinu. En varðandi tímalínurnar, þá á mikilmennafundurinn í upphafi sér stað þegar nokkuð er á liðið innri frásagnartíma verksins, og hefur Sigurlína þá hrakist um New York um skeið. Það sem á daga hennar drífur þar, sem og frásagnarlegt mikilvægi hins verðmæta forngrips, gerir söguna eins og áður segir æsilega og viðburðaríka mjög – svo mjög reyndar að brátt verður ljóst að verk Sigrúnar er ekki aðeins söguleg skáldsaga sem gætir ákveðinnar nákvæmni í endursköpun sinni á fortíðinni heldur fer hún á dálítið greinaflakk og heldur þar til móts við melódrömuna, en hefðir og stef þeirrar greinar eru leidd inn í atburðarásina með síauknum þunga eftir því sem á líður. Engin spurning leikur á því að þar er áhætta tekin, skref er tekið út fyrir hina lærðu sögulegu skáldsögu, hvurs leið á tuttugustu öldinni í sinni ýktustu og ströngustu mynd liggur frá Kiljani og Gerplu til Thomas Pynchon og Mason & Dixon, í átt að frásagnarformgerð sem tilheyrir öllu lægra þrepi í stigveldi listanna. Og má þannig jafnframt skýra nafn bókarinnar, delluferð er lýst bæði í þeim skilningi að um frásögn sé að ræða sem stenst ekki raunsæiskröfur og að um miklar ástríður sé að ræða, miklar tilfinningar, að hafa dellu fyrir einhverju. Slíkar dellur eru eðal melódrömunar en greinin er jafnframt nátengdari nútímanum en margar aðrar bókmenntagreinar og hrakningar Sigurlínu verða stökkpallur fyrir frásögnina til að taka glímuna við ákveðnar birtingarmyndir hans: Stórborgina og hin nýju samskipti sem henni tilheyra, fjöldaframleiðslu og skilvirkni tæknivædds kapítalisma, og nýfengið andrými og tilvistarlegt svigrúm kvenna til að halda út af heimilinu, jafnvel út í heim, og sjá fyrir sér sjálfar.
Allar melódrömur búa yfir illmennum og mín tilgáta er sú að illmennið í Delluferðinni, þessari afbragðsgóðu og afar forvitnilegu skáldsögu, sé sú eymd og gríðarlega misskipting auðs sem Sigurlína verður vitni að í heimsborginni, það er jú eitthvað að halda frá fátækasta landi Evrópu og verða svo vitni að jafnvel enn meira volæði. En fyrst og fremst er það misskiptingin, að sumir geti eignast svo mikið að þeir geti borgað heila landsframleiðslu fyrir ómerkilega nælu frá Íslandi.