Heimilisofbeldismál hlaut aldrei efnislega meðferð fyrir dómi vegna vinnubragða lögreglu. Lögreglan gleymdi að ýta á upptöku á segulbandi við skýrslutöku yfir brotaþola og felldi rannsókn niður áður en kærufrestur var liðinn.
„Þá tekur hann bara í höfuðið á mér og neglir mér utan í hurðarkarminn. Svo dregur hann í hárið á mér og hendir mér í stól inni á skrifstofunni hjá sér. Þá tekur hann svo bara um eyrun á mér, öskrar eitthvað á mig og ég heyri einhvern veginn ekki það sem hann segir, hann heldur svo rosalega fast. Og hrækir framan í mig.“ Svona lýsir Rúna ofbeldinu sem sambýlismaður hennar beitti hana vorið 2015. Rúna fór af heimilinu morguninn eftir og tók syni sína með sér. Hún leitaði til lögreglu, og kærði manninn. Þar var henni tjáð að svo gæti farið að maðurinn yrði ákærður, hvort sem hún legði fram kæru eða ekki.
„Svo fæ ég símhringingu nokkrum dögum seinna um að það hefði ekki verið búið að kveikja á upptökutækinu. Og þá þarf ég aftur að staðfesta kæruna. Á þessum tímapunkti þá er maður kominn í einhvern veginn svona, þú getur ekki meira,“ segir Rúna.
Rannsóknin felld niður
Samkvæmt bréfi frá ákæruvaldinu var rannsóknin felld niður í framhaldinu en Rúnu gefinn frestur til að gera athugasemdir við það. Þegar hún svo fór aftur til lögreglunnar, innan þess frests, og vildi kæra manninn, var það of seint. „Þá segja þeir bara nei, það er búið að tilkynna honum það að rannsókn málsins hefur verið lokið.“
Þetta varð til þess að héraðsdómur vísaði málinu frá. Þar sem maðurinn hafði fengið bréf um niðurfellingu málsins, taldi dómurinn að ný gögn þyrfti til þess að taka málið upp að nýju. Viku síðar var málið tekið fyrir hjá Hæstarétti, sem vísaði málinu einnig frá, vegna formgalla. „Málið hlaut aldrei neina efnismeðferð,“ segir Sonja H. Berndsen, réttargæslumaður Rúnu.
Sonja segir mikilvægt að lögreglan sé í stakk búin til þess að sinna þessum málaflokki eins og vel og mögulegt er. Hún segist finna vilja innan lögreglunnar til að gera betur, en telur að lögreglan sé mögulega fjársvelt og því ekki hægt að halda utan um málin eins og vilji er til. Hún veltir því upp hvort hlutverk réttargæslumanna megi vera stærra, og aðkoma þeirra að málarekstrinum meiri en er í dag. Þannig megi betur tryggja réttindi brotaþola.
Krefjast ekki afstöðu brotaþola strax
Jón H.B. Snorrason, saksóknari hjá lögreglunni, segir miður að málinu skyldi ljúka með þessum hætti. Hann segir að heimilisofbeldismál séu í miklum forgangi hjá lögreglunni og að breytingar hafi verið gerðar á verklagi til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. „Í þessu máli þá var kallað mjög fljótt eftir afstöðu brotaþolans. Og það er nú ein af grundvallarreglum í sakamálum að hraða málsmeðferð. Og þá var sú niðurstaða kynnt kærða og búið að loka málinu, eins og þarna gerðist, sem er óheppilegt,“ segir Jón.
„En það sem má draga sem lærdóm af þessu máli er það, og því hefur verið breytt, það er að láta ekki brotaþola standa frammi fyrir því að taka afstöðu í máli bara svona fljótt eftir atburðinn,“ segir Jón. „Og í sumum tilvikum má halda málinu áfram jafnvel þó að brotaþolinn sé ekki að reka málið.“ Hann segir heimilisofbeldismál í eðli sínu viðkvæm. „Það hefur reynst óheppilegt að vinna þessi mál vélrænt og vera með stífa kröfu um afstöðu brotaþola.“
„Ég hef bara sérsaklega áhyggjur af konum sem hafa engan til að standa upp fyrir sér,“ segir Rúna. „Og það er sá hópur sem á að geta hallað sér að lögreglunni. Lögreglan á að vera sú sem heldur utan um að þessi mál fari rétt.“
Viðtalið við Rúnu má horfa á í spilaranum hér fyrir ofan.