„Ég segi stundum að gítarkennarinn sé á rassinum á Íslandi, hann er alveg á hinum endanum," segir Ari Einarsson, nemandi í gítarleik við Tónlistarskóla Vesturbyggðar. Gítarkennarinn hans, Jón Hilmar, er hinsvegar í Neskaupstað og kennir í gegnum tölvu frá austasta kaupstað á Íslandi til þess vestasta.
„Við vorum í vandræðum með að finna gítarleikara hér á staðnum þannig að við ákváðum að prófa þetta. Ég er búinn að þekkja Jón Hilmar lengi og vissi hvað hann gæti. Hann er skipulagður og gerir þetta feikna vel," sagði Einar Bragi Bragason, skólastjóri tónlistarskólans.
Tveimur dögum eftir að Landinn heimsótti Tónlistarskóla Vesturbyggðar varð Einar Bragi bráðkvaddur. Innslagið um skólann var birt í Landanum með góðfúslegu leyfi aðstandenda Einars.