Það var orðið langt frá síðustu plötu þegar plata Gísla Kjarans Kristjánssonar eða bara Gísla, Skeleton Crew, kom út í vor. Nafnið á plötunni vísar í það að Gísli spilar á öll hjóðfæri, tekur upp og hljóðblandar í hljóðveri sínu í Höfnum á Reykjanesi.
Það var kominn tími til að Gísli sendi frá sér nýja tónlist eftir að hafa verið með sólóferilinn í salti í nokkur ár. Fyrsta sólóplata Gísla, How About That, kom út hjá EMI fyrir fimmtán árum og fékk mjög góður viðtökur gagnrýnenda sem þýddi að Gísli var ásamt hljómsveit á ferð og flugi næstu ár eftir útkomu hennar.
Leiðin lá síðan til Los Angeles til að semja og taka upp sólóplötu númer tvö en það gekk illa að klára hana. Gísli var nú samt sem áður viðriðinn tónlistarbransann og samdi, tók upp og pródúseraði fyrir tónlistarmenn eins og Mick Jones, Duffy, William Hut og fleiri auk þess að senda frá sér eitt og eitt lag.
Eftir að Gísli flutti til Íslands byggði hann sér hljóðver við sjóinn og hefur verið virkur í íslensku senunni og unnið fyrir breiðan hóp af listamönnum. En það var kominn tími á aðra sólóplötu og smám saman fæddist Skeleton Crew sem er plata vikunnar að þessu sinni á Rás 2.