„Við vonum að Egill Helgason verði ekki ósáttur yfir að við séum í samkeppni við Kiljuna í bókalestri,“ segir Gísli Einarsson sem las vægast sagt óhuggulegar draugasögur Þórbergs Þórðarssonar á æskulóðum skáldsins í nótt.

Það rigndi á Hala í Suðursveit í þokunni í nótt þegar Gísli Einarsson sjónvarpsmaður heimsótti draug Þórbergs Þórðarsonar. Skáldið fæddist þar árið 1888 og lifði til ársins 1974. Eftir hann liggja, eins og hvert íslenskt mannsbarn líklega veit, fjölmörg stórvirki og meðal annars draugasögur.

Gísli Einarsson sem enn þeysist um landið ásamt öðrum umsjónarmönnum Landans, og hefur gert í beinni útsendingu síðan átta í gærkvöldi, rifjaði upp nokkrar draugasögur Þórbergs fyrir áhorfendum þegar klukkan fór að nálgast eitt í nótt. „Af illkvittni okkar þykir okkur ekki verra ef sögurnar skelfa einhverja áhorfendur svo mikið að þeir þori ekki að fara að sofa og horfi bara á útsendinguna í staðinn,“ segir hann glettinn áður en hann les. Þetta bragð virðist hafa virkað, fjölmargir hafa setið límdir við þáttinn sem hefur nú verið í loftinu í 17 klukkustundir. Lestur Gísla má sjá í spilaranum efst í fréttinni fyrir þá sem þora.

300. þáttur Landans er í beinni útsendingu í heilan sólarhring á RÚV 2 og vef RÚV. Fimm umsjónarmennn ásamt tökuliðum þeysa um allt land, hver í sínum landshlutanum. Þau flakka á milli, taka viðtöl, segja og sýna hvað landsmenn eru að fást við í leik og starfi.