Heildaráhætta vegna skipulagðrar glæpastarfssemi á Íslandi er gífurleg, að mati greiingardeildar ríkislögreglustjóra. Staðan fer síversnandi og telur greiningardeildin ljóst að hún hafi mikil áhrif á líf og heilsu fólks á landinu og sé mjög skaðleg fyrir samfélagið og alla innviði þess.
Staða löggæslunnar á landinu er með þeim hætti að mati greiningardeildarinnar að geta lögreglu til að takast á við skipulagða glæpastarfssemi er mjög lítil. Staðan sé þannig að forgangsraða þurfi innan lögreglunnar og það kemur niður á frumkvæðisvinnu lögreglu við afbrotavarnir. Þá sé geta eftirlitsstofnana lítil og samstarf lögreglu og eftirlitsaðila takmarkað.
Sjö erlendir glæpahópar í það minnsta
Helstu brotaflokkarnir sem taldir eru ógna samfélaginu eru fíkniefnasala og innflutningur, smygl á fólki, mansal og vændi, vinnumarkaðsafbrot, peningaþvætti, skattsvik og spilling og svo farandbrotahópar.
Í skýrslunni kemur fram að í það minnsta hópar frá sjö þjóðríkjum starfi hér á landi auk þeirra innlendu hópa sem hér starfi. Einn erlendi hópurinn stjórni til að mynda kókaínmarkaðnum og annar sérhæfi sig í innbrotum og þjófnaði svo dæmi sé tekið. Þá kemur fram að vændi hafi aukist á síðustu þremur árum sem rekja megi til skipulagðra brotahópa sem og vinnumarkaðsbrot ýmiskonar og vinnumansal.
Íslenskir glæpamenn flytja inn ópíóða
Þá segir í skýrslunni að umfangsmiklir íslenskir fíkniefnasalar flytji inn mikið magn af sterkum verkjalyfjum, aðallega frá Spáni og selji hér á landi. Oft séu lyfin flutt inn með löglegum hætti en svo seld á svörtum markaði. Tollstjóri leggi reglulega hald á sterk verkjalyf sem reynt er að smygla til landsins. Ekkert útlit sé fyrir að þessi starfssemi fari minnkandi, heldur þvert á móti. Neysla slíkra lyfja, svokallaðra ópíuóða, hefur kostað fjölda fólks lífið hér á landi undanfarin ár. Íslensku afbrotahóparnir starfa oft með þeim erlendu og aðstoði þá á ýmsan hátt.
Að náttúruhamförum frátöldum telur greiningardeild ríkislögreglustjóra skipulagða glæpastarfsemi alvarlegustu ógn við samfélag og einstaklinga á Íslandi.