GG blús er rokkaður blúsdúett af Álftanesi, mannaður tveimur Guðmundum á gítar, trommur og söng. Þeir nafnar hafa komið víða við en Guðmundur Jónsson er þekktastur fyrir að vera úr Sálinni hans Jóns míns og Guðmundur Gunnlaugsson hefur spilað með hljómsveitunum Kentár, Sixties og fleirum.
Guðmundarnir hafa undanfarin misseri verið iðnir við tónleikahald og spilað sígrænar ábreiður um borg og bý og meðal annars komið fram á Blúshátíð Reykjavíkur.
Punch er fyrsta plata GG Blús og tónlistina flokka þeir sem blágrýtt bílskúrsrokk af gamla skólanum. Platan inniheldur sjö frumsamin lög og þrjár ábreiður þar sem frasaskotin gítarvinna tekst á við villtan trommuleik og tregafullar sönglínur fljóta yfir ásamt hljóðbrotum og pælingum úr ýmsum áttum.
Planið hjá nöfnunum var að skapa tónlist með því að nota eingöngu gítar, trommur og söng. Einnig skipti máli að platan endurspeglaði stíl sveitarinnar sem hefur þróast með ábreiðuflutningi undanfarna mánuði. Þeir eru með fæturna fastar í blúshefðinni en samt móttækilegir fyrir nútímanum.
Platan skartar þremur góðum gestum, þeim Sigurði Sigurðssyni á munnhörpu, Jens Hanssyni á saxófón og pönk-blús-goðsögninni Mike Pollock, sem syngur og semur eitt lag með GG Blús.
GG Blús eiga plötu vikunnar að þessu sinni en þú getur hlustað á Punch í spilara hér að ofan ásamt kynningum sveitarinnar á lögunum.