Fjölmargar tilkynningar um öndunarfærasjúkdóma af óljósum ástæðum, tóku að berast heilbrigðisyfirvöldum í Illinois og Wisconsin í Bandaríkjunum í júlí. Sjúkdómarnir voru þó hugsanlega tengdir veipi. Margir sjúklinganna eru ungir að árum.
Fleiri dæmi komu upp víðar um Bandaríkin og nú hafa um 450 manns veikst og 5 látist. Farið var í að rannsaka orsök veikindanna í Illinois og Wisconsin og niðurstöðurnar birtar í The New England Journal of Medicine í liðinni viku. Þar voru rannsakaðir 53 sjúklingar sem leitað höfðu á sjúkrahús vegna öndunarfærasjúkdóms og höfðu veipað. Í framhaldinu birti Embætti Landlæknis tilkynningu um veikindin.
Veikindin lýsa sér þannig að flestir sjúklinganna hafa verið með öndunarfæraeinkenni, hósta, mæði og jafnframt hafa þau verið með einkenni frá meltingarvegi, ógleði, uppköst og jafnvel niðurgang. Allir lýstu slappleika og almennum lasleika.
Uppgötvaðist á barnadeild
„Þetta byrjar eiginlega þannig að læknar á barnadeild í Wisconsin tóku eftir því að óvenjumikið af ungu fólki sem hafði komið inn var með alvarleg öndunarfæraeinkenni, með öndunarbilun í rauninni og þéttingar í lungum og þeir byrjuðu á því að tilkynna þetta, að þetta væri eitthvað óútskýrt,“ segir Sif Hansdóttir, yfirlæknir lungnadeildar Landspítalans. „Það fannst ekki ákveðin skýring, það er að segja það var engin sýking eða neitt slíkt. En allt í einu fóru þau að sjá mikið af ungu fólki, sem áður var hraust, koma inn með þessi einkenni. Það var þá sem þessi rannsókn fór af stað.“
„Þessi rannsókn í New England Journal of Medicine gengur út á að skoða einstaklinga eða leita eftir einstaklingum sem höfðu komið á spítala, bæði í Illinois og Wisconsin og fara yfir einstaklinga sem komu inn með þessi einkenni og íferðir í báðum lungum,“ bendir Sif á. „Þeir sem höfðu veipað síðustu 90 daga voru skoðaðir sérstaklega og voru teknir fyrir í þessari rannsókn og þeirra mál skoðuð alveg ofan í djúpið.“
Snúið að finna nákvæmlega orsökina
Sif segir snúið að komast að því nákvæmlega hvað veldur, tengist sjúkdómurinn veipi á annað borð.
„Er þetta eitthvað í veipvökvanum sjálfum og þá hvað?“ segir hún spyrjandi. „Gæti þetta mögulega verið tengt tækinu, rafrettunni? Það eru til ýmis mismunandi tæki, mismunandi rafrettur sem eru mismunandi samsettar. Gæti þetta verið tengt einstaklingnum? Eru þetta einstaklingar sem eru að deila rafrettum? Eru þetta einstaklingar sem nota rafrettur meira eða oftar en aðrir? Eru þetta einstaklingar sem eru kannski að anda meira kröftugt að sér? Eru þetta einstaklingar sem eru með undirliggjandi vandamál? Af hverju veikist þetta fólk? Það er í rauninni spurning sem ekki sem hefur verið almennilega svarað,“ segir Sif.
Langflestir höfðu notað kannabisvökva
Eitt á þó mikill meirihluti, yfir 80 prósent, þeirra sjúklinga sem voru rannsakaðir og fjallað er um í greininni sameiginlegt, og það er að hafa notað kannabisvökva í rafrettuna, að eigin sögn. Tæp 20 prósent sögðust aðeins hafa notað nikótínvökva, en nokkuð stór hópur notað hvort tveggja. Kannabis er ólöglegt í ríkjunum tveimur og í greininni í New England Journal of Medicine er sérstaklega tekið fram að það gæti verið að einhverjir hefðu ekki viljað játa að hafa notað slíkan vökva.
Hiti í rafrettuumræðunni
Það er óhætt að fullyrða að mörgum verði heitt í hamsi þegar kemur að rafrettum. Sumir líta svo á að þær séu mikilvægt tæki fyrir reykingafólk til að losa sig úr viðjum sígarettureykinga. Aðrir líta svo á að rafrettur auki líkur á að ungt fólk fari að reykja. Hefur Sif fundið fyrir því í sínu starfi hvað fólk skiptist í tvö horn?
„Já algjörlega.“ Það er held ég erfitt að finna eitthvað upp sem er jafnskaðlegt og sígarettur,“ segir Sif. „Þannig að það er ekki alveg sanngjarnt, það er allavega ekki hægt að álíta sem svo að eitthvað sem er ekki jafn skaðlegt og sígarettur, sé gott. Það er ekki endilega samasemmerki þar á milli.“
Það eru almennt ekki jafnmörg eiturefni í veipvökva og í sígarettum, þótt að veipvökvinn sé mismunandi bendir Sif á. „En lungun eru nú þannig gerð að þeim er ætlað að anda að sér fersku lofti og það er alveg ljóst að annað en ferskt loft, til dæmis mengun og annað er ekki gott fyrir lungun. Þau eru auðveldlega útsett fyrir öllu í kringum okkur sem við öndum að okkur og bregðast við aðskotahlutum, þannig að það getur myndast bólga eða skemmd á þekjunni í lungunum og alveg ljóst að rafrettuvökvinn er ekki góður fyrir lungun.“
Á vef Neytendastofu má sjá lista yfir rafrettur og áfyllingar sem eru samþykktar hér á landi.
Ekki hægt að útiloka að þessi veikindi hér
Sif segist ekki vita til þess að neinn hafi leitað á Landspítalann með samskonar sjúkdóma og þá sem hafa komið upp í Bandaríkjunum undanfarnar vikur og mánuði.
„Ekki það að við vitum af, en með öllu því sem hefur verið í gangi síðustu mánuði erum við núna miklu meira vakandi fyrir þessu,“ segir Sif. „Ég held að það sem þetta hefur gert fyrir okkur hér er að fólk er orðið miklu meðvitaðara og duglegra að spyrja í þaula út í veipið og hvað fólk setur í vökvann, hvað fólk veipar og hversu oft.“ Hún segir að það sé ekki loku fyrir það skotið að einhver hafi leitað á spítalann með sambærileg einkenni. „Það er alveg mögulegt að annað hvort hjá okkur eða jafnvel á barnadeildinni hafi komið einhver tilfelli á síðustu mánuðum eða árum þar sem hefur hreinlega ekki verið kveikt á perunni.“
Vantar betri rannsóknir
Það eru sennilega allir sammála um að ekki sé gott hve margt ungt fólk hefur tekið upp á því að veipa á undanförnum árum. En hvað með þá sem þegar reykja og vilja nota veip til að auðvelda sér að hætta eða hafa getað hætt með aðstoð rafrettunnar?
„Það er hægt að horfa á þetta út frá mörgum hliðum,“ segir Sif. „Það hafa verið gerðar rannsóknir á því og engar sértaklega góðar, þannig að það sé hægt að taka afgerandi afstöðu. Það sem við í raun vitum ekki er hvort að það að hætta að reykja með aðstoð veips, sé betra heldur en að nota hefðbundnar eða viðurkenndar og vel rannsakaðar leiðir til að hætta að reykja.“
Sennilega skárra en sígarettur, en samt ekki gott
„Ég sem lungnalæknir fæ náttúrlega oft þessa spurningu frá mínum skjólstæðum: „Hvað með veip?“ Ég svara því yfirleitt þannig að það geti eiginlega ekki verið verra en sígaretturnar, en ég ráðlegg frekar að fara þær leiðir sem eru vel rannsakaðar og viðurkenndar. Þarna skiptir líka máli að við erum líka að átta okkur á og ræða í dag mögulega bráða fylgikvilla við veipinu, en við vitum ekki enn í dag hvað eru langtímaáhrifin. Veipið er nýtt af nálinni.“
Sif segir að fjölmargar rannsóknir séu í gangi á veipi. Læknar fái aukna vitneskju um hvort það sé hættulegt og þá hversu hættulegt á næstu árum.
„Ég get ekki ráðlagt fólki að nota veip eins og staðan er í dag. En ég segi gjarnan að þetta geti ekki verið verra en reykingarnar, en það þýðir samt ekki að það sé gott.“