Dæmi eru um að ökumenn bílaleigubíla þurfi að greiða allt að 5.500 krónur fyrir staka ferð í gegnum Vaðlaheiðargöng. Veggjaldið er almennt 1.500 krónur og er innheimt rafrænt. Bílaleigur sjá um að greiða og innheimta veggjaldið fyrir sína leigjendur og innheimta svo þjónustugjald fyrir það. Það gjald er mishátt eftir bílaleigum og það er á færi þeirra að ákveða upphæðina.
Þetta kom fyrst fram í Stundinni. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar sagði í samtali við Morgunútvarp Rásar 2 að samtökin haldi ekki utan um gjaldtöku bílaleiganna eða hafi sérstakar athugasemdir við þær.
Getur ýmislegt legið á bak við innheimtu
Hann segir að ýmsar forsendur geti verið fyrir því hvernig bílaleigur ákveði upphæð þjónustugjaldsins. „Menn verða að athuga það að á bak við innheimtu hjá fyrirtækjum getur ýmislegt legið. Það er alls konar kostnaður varðandi breytingar á bókhaldi, varðandi mannafla og síðan líka getur vel verið að einhver fyrirtækjanna séu að horfa til þess að það sé hluti af þessum greiðslum sem ekki innheimtist og reikni það inn í gjöldin. Það getur verið eins misjafnt og fyrirtækin eru mörg,“ sagði hann.
Það geti verið vandkvæðum háð fyrir bílaleigur að rukka fólk um þjónustugjald eftir á. Til dæmis sé ótrúlegur fjöldi fólks sem ekki greiði slík gjöld. Það valdi kostnaði fyrir bílaleigurnar. Þá geri ný persónuverndarlög það að verkum í ákveðnum tilfellum hverfi allar upplýsingar um leigjendur úr kerfum bílaleiganna um leið og þeir fari úr landi. Það geti gert innheimtu slíkra gjalda ómögulega eftir á.
Ekki svo einfalt í nýjum heimi greiðsluöryggis
Jóhannes sagði að það hefði þurfti að leysa úr málum um hvernig átti að innheimta gjöldin í göngin frá bílaleigum á sínum tíma þegar göngin voru tekin í notkun. Þá hafi verið ákveðið að bílaleigurnar tækju að sér innheimtuna og greiddu gjöldin fyrir hönd leigutaka. Bílaleigurnar gætu svo rukkað viðskiptavini sína um gjaldið ásamt þjónustugjaldi í staðinn.
„Okkur finnst svo einfalt að það eigi bara að vera hægt að senda rukkun á kortið. En í nýjum heimi greiðsluöryggis, þá er það ekki alveg jafn einfalt, og það á ekki að vera gríðarlega einfalt að senda mönnum bara reikning og rífa fjárhæð út af kortinu fyrir hvað sem er.“