Nokkrir manngerðir kalksteinshellar eru á Ægisíðu á Hellu sem Ólöf Þórhallsdóttir hefur tekið í gegn ásamt fjölskyldu sinni. Nú stendur til að hleypa ferðamönnum með leiðsögn niður í hellana sem munnmælasögur herma að Papar hafi gert.

Það kom sendiboða Síðdegisútvarpsins Andra Frey verulega á óvart hversu stór hellirinn var sem hann skoðaði á dögunum. „Þetta er stærra en íbúðin sem ég bý í núna að minnsta kosti og svo eru alls konar rými, gat upp í loft, útskornir krossar og kertastjakar."

Fjölskylda Ólafar Þórhallsdóttur hefur búið á jörðinni í yfir tvöhundruð ár og allan þann tíma hafa gengið sögur mann fram að manni um hellana á landinu sem hingað til hafa ekki verið opnir ferðamönnum. „Við erum að vinna að uppgerð þriggja hella í túninu með það að markmiði að stuðla að varðveislu þeirra og opna fyrir ferðamenn, svo hópar geti komið og fengið leiðsögn,“ sagði Ólöf í Síðdegisútvarpinu.

Það er í rauninni ekki vitað hverjir grófu út þessa hella á sínum tíma en fjölskylda Ólafar hefur alltaf haft sínar kenningar um það. „Þetta eru manngerðir hellar það er alveg ljóst,“ sagði Ólöf og bætti við: „Munnmælasögur sögur sem hafa gengið í gegnum aldirnar herma að þessir hellar séu gerðir af Pöpum, írskum munkum sem hefðu numir hér land áður en norrænir menn komu. Það hefur ekki verið sannað en það eru hundruð svipaðra hella milli Þjórsár og Rangár.“

Fjölskyldan vinnur nú að því að opna þrjá hella en telur að það sé mun fleiri hellar í landinu. „Á átjándu öld þá er gert kvæði sem tekur fram að það séu átján hellar í landinu.“ segir Ólöf „Við vitum um tólf og það væri gaman að finna fleiri en við höfum fundið tólf við ýmis atvik, til dæmis datt hestur hálfur niður um einn.“

Hellarnir sem fjölskyldan veit af hafa verið nýttir í ýmislegt í gegnum tíðina til dæmis fyrir heyr og búfénað og síðan hafa verið haldin brúðkaup, tónleikar og ýmislegt fleira í seinni tíð. „Það er ekki til betri geymsla fyrir grænmeti, það er alltaf sama hitastigið í þeim.“

Hellarnir eru friðlýstir af Minjastofnun og eru uppgerðir í samvinnu við fólkið þar. Ólöf Þorvaldsdóttir og fjölskylda hafa ýmsar hugmyndir um notkun þeirra eins og heyra má í spilara hér að ofan.