Hjá bæði Reykjavíkurborg og Veitum er þegar byrjað að gera áætlanir um hvernig brugðist verður við áköfum skúrum sem munu verða vegna loftslagsbreytinga. Þetta kom fram á fundi loftslagsráðs sem bar yfirskriftina Erum við tilbúin? Aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum. Í Speglinum var rætt við Hrönn Hrafnsdóttur, sérfræðing á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og Fjólu Jóhannesdóttir fagstjóra fráveitu

Vegna loftslagsbreytinga sem verða á næstu árum er því spá að meiri ákefð verði í rigningu og að sjávarborð muni hækka bæði vegna hlýnunar og landsigs. Loftslagsbreytingarnar munu líka hafa áhrif á gróðurfarið.

„Við vitum það að það mun líklega rigna meira á styttri tíma. Það verður kannski ekki meiri rigning yfir árið en það verða ákafari skúrir. Fráveitukerfin eru kannski hugsuð fyrir þessa hefðbundnu íslensku rigningu. En þessar stuttu áköfu skúrir eru bara ekki þekktar og þar af leiðandi er kerfið ekki hannað fyrir það. Við viljum reyna að auka seiglu kerfisins með því að nota grænar lausnir,“ segir Fjóla.

Hrönn segir að af hálfu Reykjavíkurborgar sé unnið að því að krotleggja hugsanlegar breytingar sem verða í framtíðinni. Byrjað sé að gera ráð fyrir meiri rigningarákefð í áætlunum og skipulagi. Þegar sé byrjað á framkvæmdum til að koma í veg  fyrir að fráveitukerfið yfirfyllist.

„Á Óðinstorgi erum við að tala um litlar einfaldar lausnir þar sem við erum byrjuð að setja niður blágrænar tafir þar sem vatnið rennur fyrst í blómabeð og svo niður í fráveitukerfið,“ segir Hrönn.

Svokallaðar blágrænar lausnir felast meðal annars í því að þegar mikil rigning skellur á eigi vatnið einhverja varaleið áður en það rennur til sjávar í gegnum fráveitukerfið.


Hlýða má að viðtalið við Hrönn og Fjólu í spilaranum hér að ofan.