Forstjóri Landsvirkjunar segir að vandamál í raforkukerfinu tengist á engan hátt fjármögnun. Vandamálið sé að samfélagið og stjórnvöld séu ekki sammála um að það þurfi að styrkja raforkukerfið. Einfalda þurfi leyfiskerfið sem sé allt of þungt. Það gangi ekki að það sé hægt að stöðva verkefni endalaust. Landsnet, sem stofnað var fyrir 15 árum, sé fyrst núna að komast í sitt fyrsta uppbyggingarverkefni.
Fyrsta uppbyggingarverkefnið í 15 ár
Raforkukerfinu er skipt í flutningskerfi eða Byggðalínu og svo dreifikerfi sem veiturnar sjá um en flutningskerfið eða meginslagæðin í kerfinu er á ábyrgð Landnets. Það kerfi klikkaði í ofsaveðrinu. Línan er komin til ára sinna, orðin 40 ára. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að á þessum árum hafi lítið verið fjárfest í meginflutningskerfinu.
„Sem dæmi má nefna að frá því að Landsnet var stofnað fyrir 15 árum að þá er fyrirtæki fyrst núna á þessu ári að komast í sitt fyrsta uppbyggingarverkefni. Þó að Landsnet hafi ítrekað bent á það að það þyrfti að ráðast í mörg þörf verkefni til að svona staða kæmi ekki upp eins og kom upp í þessari viku," segir Hörður.
Vantar almennan skilning
Hörður er að tala um Kröflulínu 3, milli Kröflu og Fljótsdals. En hvað veldur þessu?
„Fyrsta vandamálið er það að samfélagið er bara ekki sammála um að það sé þörf á að styrkja flutningskerfið. Við höldum bara að þegar raforkan kemur þegar veðrið er gott komi það líka þegar veðrið er vont. Það vantar almennan skilning á því að úti á landi er raforkuöryggi ábótavant, " segir Hörður.
Hægt að stoppa verkefni endalaust
Hann bendir líka á að leyfiskerfið sem er við lýði sé allt of þungt í vöfum.
„Við verðum að hafa kerfi sem tryggir hagsmuni íbúanna og tryggir umhverfissjónarmið en það að það sé hægt að stoppa verkefni endalaust eins og raunin er í dag, þá komur upp staða eins og við erum með í dag," segir Hörður.
Hann segir að fyrsta skrefið sé að verða sammála um að þörf sé á öflugu flutningskerfi. Skilningur verði að vera á því hvernig samfélagið hafi breyst og hvaða hlutverki raforkan gegni.
„Síðan þurfum við að breyta reglunum þannig að eftir ákveðinn tíma þegar búið er að fara í gegnum samráðsferli og umhverfismál að þá þurfa þar til bær stjórnvöld að geta tekið ákvarðanir til hagsbóta fyrir samfélagið í heild sinni," segir Hörður.
Sjá: Arður orkufyrirtækja í að byggja upp raforkukerfið
Fjármagn ekki vandamálið
Eftir óveðrið og afleiðingar þess hafa stjórnvöld brugðist við. Þjóðaröryggisráð var kallað saman í gær og settur hefur verið á fót átakshópur sem á að fara í saumana á vandanum. Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra byggðamála og samgöngumála, sagði í Speglinum í gær að það ætti að skoða það að nýta arðinn af veitufyrirtækjum og Landsvirkjun til að bygga upp og treysta raforkukerfið. Hvernig hugnast Herði það? Hann segir að sjálfsögðu ráði stjórnvöld hvað sé gert við arðinn.
„Ég tel hins vegar að vandamálið á undanförnum árum og vandamál sem stöndum frammi fyrir tengist á engan hátt fjármögnun. Ég held að Landsnet hafi verið búið að fullfjármagna öll þau verkefni sem það vildi fara í á síðustu árum. Það er ekki fjármagskortur. Það er að skilningur sé á því að verkefnanna sé þörf og leyfisveitingakerfið. Það er vandamálið en ekki fjármögnunin," segir Hörður.
Nánar er rætt við Hörð í Speglinum.