Nokkrar þingkonur gengu út úr sal Alþingis í dag þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gekk í ræðustól og tók til máls. Þetta gerðist meðan þingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu í lokaatkvæðagreiðslu um fjárlög næsta árs.

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi flokkssystir Sigmundar stóð fyrst úr sæti og gekk út. Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki og Helga Vala Helgadóttir Samfylkingunni stigu því næst á fætur og þær Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, skömmu síðar. Allar gengu þær út meðan á ræðu Sigmundar Davíðs stóð. Þegar Sigmundur hafði lokið ræðu sinni og sest aftur sneru þingkonurnar fjórar aftur í þingsalinn.

Ummæli sex þingmanna sem sátu að drykkju á barnum Klaustri við hlið Alþingishússins og viðbrögð þeirra eftir að upp komst um ummælin hafa dregið dilk á eftir sér. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í fréttum RÚV, í gær að hann hefði ekki boðað Sigmund Davíð á fundi formanna stjórnarandstöðuflokkanna eftir að ummælin urðu opinber. Nokkrir þingmenn deildu hart á þingmennina sex við upphaf þingfundar fyrr í vikunni og margir hafa lýst efasemdum um hvernig samskiptin yrðu í framtíðinni. 

Fréttin hefur verið uppfærð.