„Félagslegu einkennin eru helst þau að um leið og þau fara að kvisast út þessi orð, smitast, þá þurfa krakkarnir að finna ný orð sem við hin skiljum ekki,“ segir Anna Sigríður Þráinsdóttur málfarsráðunautur RÚV um þróun unglingaslangurs í gegnum tíðina.
„Í upphafi 21. aldarinnar var gjarnan sagt að hitt og þetta væri hipp og kúl, en þegar mamma og pabbi fóru að tala um hipp og kúl þá var ekki hægt að nota það lengur,“ segir Anna. Þegar hún var unglingur á níunda áratugnum var frasinn „pæld'í'ðí“ mikið notaður og Anna segist heyra hann enn. „Unglingamálið kannski eldist svolítið með manni. En svo detta önnur orð upp fyrir. Það talar enginn lengur um að hann sé að kálast einhvers staðar sem var mjög vinsælt á mínum unglingsárum.“ En hvort var hún þá skvísa eða pæja? „Ég var gella. Skvísa held ég að sé slangur sjöunda eða áttunda áratugarins, en ég var á níunda. Það voru píur og gellur. Og þær hafa lifað, gellan lifir enn. Ég heyri unga fólkið enn tala um að hin og þessi sé gella.“
Í fjórða þætti af Veröld sem var fjalla Bergsson og Blöndal um unglinginn og unglingamenningu í nútíð og fortíð. Talsmátinn og sletturnar, sjoppurnar, stælgæjar og skvísur koma við sögu en hægt er að horfa á þáttinn og eldri þætti í spilara RÚV.