Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir vendir í kvöld kvæði sínu í kross og flytur frumsamið uppistand fyrir fullum sal af fólki í Þjóðleikhúsinu. „Dóri DNA frændi minn er að gefa út skáldsögu svo mér finnst viðeigandi að ég fari í uppistandið,“ segir hún. „Ég get kallað mig Auði DNA.“
Uppistand Auðar Jónsdóttur í Þjóðleikhúsinu í kvöld er liður í dagskrá Klikkaðrar menningar sem fram fer um helgina. „Mér finnst þetta skemmtilegt þema og sniðug hátíð. Það er svo auðvelt að gera grín að geðheilsu fólks því það er svo mikið tabú,“ segir hún glettin í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. „Við erum fljót að upplifa skömm eða blygðun yfir andlegu ástandi en í skömminni býr líka húmorinn. Þetta er gróðrarstía fyrir brandara.“
Andlegir erfiðleikar eru algengir hér á landi og segir Auður að flestir vinir hennar og fólk í kringum hana upplifi, líkt og hún sjálf, miklar hæðir og djúpar lægðir í andlegu ástandi. „Ég þekki marga sem hafa upplifað þunglyndi, maníu og veruleikarof. Tilfinningalífið er svo viðkvæmt. Þetta er fínlegt kerfi sem má ekki við miklu hnjaski.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Auður er með uppistand en hún segir afar viðeigandi að hún fóti sig í því. „Dóri DNA frændi minn er að gefa út skáldsögu svo ég fer í uppistandið í staðinn. Nú heiti ég Auður DNA,“ hlær hún. Uppistandið verður miðaldra að sögn Auðar og mun hún koma til með að gera grín að því sem fylgir því að vera á miðjum aldri. „Ég get gert grín að breytingaskeiðinu. Margar konur upplifa geðsveiflur og óvænt andleg ferðalög á því tímabili.“
Spurð hvort uppistand hafi í sjálfu sér ekki tilhneigingu til að hafa slæm áhrif á geðheilsu svarar hún því að það sé eflaust svo hjá sumum, en ekki henni. „Ég er svo athyglissjúk að ég fæ orku og pepp út úr því að koma fram. Ég get orðið rosalega vandræðaleg við afgreiðslumann í sjoppu því mér finnst ég hafa sagt eitthvað asnalegt en svo er ekkert mál að koma fram fyrir framan hundrað manns.“
Hafdís Helga Helgadóttir ræddi við Auði Jónsdóttur í Síðdegisútvarpinu og má hlýða á allt viðtalið í spilaranum efst í fréttinni.