Stjórn Geðhjálpar hefur lýst yfir áhyggjum af lokun rúma á deild 33A á geðsviði Landspítalans. Í yfirlýsingu til fjölmiðla hvetur stjórnin stjórnvöld til þess að tryggja að spítalanum berist nægilegt fjármagn til að hægt sé að halda sömu þjónustu allt árið. Geðræn veikindi séu ekki árstíðabundin.

Greint var frá því fyrir helgi að helmingur legurýma á deild 33A yrði lokaður fram yfir verslunarmannahelgi. Deildin er bráðageðdeild og þangað leitar iðulega fólk í sjálfsvígshættu. Árleg meðalnýting rúma á deildinni er 106 prósent. Vanalega eru 31 rúm á deildinni en þau verða 16 þangað til eftir mánaðamót. 

Í yfirlýsingu Geðhjálpar segir: „Brýnt er að aðgengi að þjónustu geðsviðsins sé tryggt enda er ekki hægt að ganga að sambærilegri þriðja stigs þjónustu annars staðar.“ Jafnframt er bent á þá staðreynd að þeir sem glíma við geðræn veikindi geri það líka á sumrin. Mikilvægt sé að veikt fólk hafi tryggt aðgengi að þjónustu geðsviðsins, sérstaklega þar sem það geti ekki sótt þá þjónustu annað. Á sama tíma og rúmum á bráðageðdeildinni sé lokað dragi úr starfsemi göngudeildarinnar auk þess sem önnur úrræði séu ekki í boði vegna sumarleyfa.  

Það gerist reglulega að geðdeildin sé lokuð yfir sumartímann. Í viðtali við Morgunblaðið fyrir helgi sagði María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, að lokunin tengist sparnaði auk þess sem það verði að loka deildinni vegna manneklu. Hún áætlar að þetta sé tíunda árið í röð sem geðdeildin neyðist til að fækka rúmum. Þó verði ekki lokað jafn lengi yfir sumarið og síðustu ár en í fyrra var lokað í sex til sjö vikur. 

Einar Þór Jónsson, formaður Geðhjálpar, var gestur Síðdegisútvarpsins á Rás 2.  Hann sagði að það væri slæmt ef það væri hefðbundið að fækka rúmum á geðdeildinni og það yki álag á aðstandendum því önnur úrræði eru ekki í boði. Einar benti á að dæmi séu um að alvarlegir atburðir hafi átt sér stað á þessum árstíma, sem sum hafa verið rakin til þess að rúmum er fækkað og álagið er meira. Þannig skapiar ástandið vegna sumarlokana ákveðna hættu. Til dæmis hafa þeir sem þurfa innlögn ekki fengið aðstoð og fólk hefur svipt sig lífi inni á geðdeild. 

Geðhjálp myndi vilja sjá viðhorfið breytast og að sumarlokanir rúma væru ekki lengur taldar í lagi. „Þetta er ekki bara hættuástandið heldur er þetta líka ákveðin vanvirðing við þjónustuna, við sjúklingana og við aðstandendur. Það er bara gert ráð fyrir að hlutirnir á einhvern hátt reddist og það er ekkert þolandi að horfa upp á það.“ 

Fréttin var uppfærð kl. 17:48