Tónlistarkonan GDRN var sigursælust á Íslensku tónlistarverðlaununum á dögunum þar sem hún hreppti hnossið í fjórum flokkum. Samstarfsmenn GDRN segja hana tónlistarlegan suðupott sem komi með óvenjulega rödd og óvænt áhrif inn í poppið.
GDRN heitir Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir og er 23 ára Mosfellingur. Hún lærði á fiðlu frá unga aldri, síðar söng og píanó, en ætlaði sér upphaflega að verða fótboltastjarna frekar en að leggja fyrir sig tónlist.
„Það var draumurinn. Það var ekki fyrr en ég eyðilagði á mér hnén að ég þurfti að snúa mér eitthvað annað og þá var tónlistin í fyrirrúmi. Þegar ég byrjaði að búa til tónlist sjálf henti ég mér út í djúpu laugina. Maður verður að vera svolítið kræfur. Ef mig langaði að vinna með einhverjum fór ég bara upp að honum og sagði: Ég dýrka það sem þú ert að gera, ég er söngkona, mig langar að vinna með þér.“
GDRN vinnur með upptökustjórateyminu ra:tio, sem samanstendur af þeim Bjarka Sigurðarsyni og Teiti Helga Skúlasyni, en þau hafa þekkst síðan í MR.
„Hún er mjög einlægur karakter,“ segir Bjarki. „Það var það sem heillaði mig þegar við byrjuðum að vinna með henni, sem og hvað hún var föst á sínu. Hún er með ótrúlegt eyra og kom með mjög kúl hluti inn í það sem við vorum að gera.“
„Hún er með þunga djassaða rödd,“ bætir Teitur við. „Rödd sem er mjög sjaldgæf í popptónlist. Hún er að taka áhrif frá svo mörgum tónlistarstefnum og blanda saman í poppfusion-tónlist, svo úr verður algjör tónlistarsuðupottur, sem þessi stelpa er.“
Þegar Guðrún tók við verðlaunum á Íslensku tónlistarverðlaununum brýndi hún fyrir ungum stúlkum að láta sig dreyma stóra drauma. Hún segir gott að vera kona í tónlistarbransanum á Íslandi, hún finni fyrir miklum stuðningi frá öðrum tónlistarkonum og vill vera innblástur fyrir yngri stúlkur.
„Ég er líka að vinna mikið með þessum rapparatöffurum. Þeir eru mjög meðvitaðir um femínisma og kvenréttindi og eru að passa sig að vera á tánum, eða flestir að minnsta kosti. Það er mjög mikið af strákum í þessu en ég held maður eigi ekki að láta það skilgreina sig. Ég ákvað strax að ég væri komin til að vera og ætti sæti við þetta borð. Þannig að þetta er strákaklúbbur en maður er að breyta því.“
Plata GDRN, Hvað ef, var valin poppplata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum, hún var kosin söngkona ársins í flokki popp-, rokk-, raf- og hiphop-tónlistar, lag hennar, Lætur mig, var valið popplag ársins og myndbandið við sama lag myndband ársins. Hún segir verðlaunin hafa komið sér ánægjulega á óvart.
„Ég var búin að setja mér það leynimarkmið að vinna söngkonu ársins. Svo fékk ég þrjú í viðbót, þetta var eins og draumur. Það er líka svo gaman þegar maður hefur lagt svo mikið í að koma einhverju frá sér og er svo ánægður með það að fá staðfestingu á því frá jafn stóru batteríi og Íslensku tónlistarverðlaununum. Það var alveg bilað.“