Leikkonan Eygló Hilmarsdóttir er sannur gaflari en hún er bæði fædd og uppalin í Hafnarfirði. Hún bauð þeim Helgu Margréti og Mána í RÚV NÚLL að kíkja með sér í fótabað við Kleifarvatn.
Kleifarvatn í Hafnarfirði er náttúruperla sem leikkonan Eygló Hilmarsdóttir, sem margir muna eftir sem Höllu í Gauragangi, segist þrátt fyrir að vera alin upp í bænum ekki hafa heimsótt vatnið nægilega oft. Eygló, Helga Margrét og Máni skelltu sér þangað til að bæta úr því, virtu fyrir sér náttúrufegurðina og dýfðu tánnum í náttúrulaug við vatnið. Á leiðinni söng Eygló viðlagið í Ástardúett Stuðmanna fyrir samferðafólk sitt og sýndi og sannaði að það vantar ekkert upp á falsettuna á hennar bæ.
Í sumar hefur Eygló ýmislegt á prjónunum en hún hyggur á ferðalag um landið. Hún mun meðal annars taka þátt í listahátíðinni Lunga á Seyðisfirði næstu helgi og sýna verk með sviðslistahóp sínum fyrir gesti hátíðarinnar.
Sumarið er nýr dægurmálaþáttur sem er á dagskrá RÚV mánudaga til fimmtudaga klukkan 19:35. Þar verður kíkt á mannlífið og menninguna í borg og sveit, kafað ofan í djúpar safnkistur RÚV, og grillað að hætti grænkera með Guðrúnu Sóleyju, svo fátt eitt sé nefnt.