Leikgerð Halldórs Laxness Halldórssonar og Unu Þorleifsdóttur í Þjóðleikhúsinu, Atómstöðin – endurlit, er flott tilraun að mati Maríu Kristjánsdóttur gagnrýnanda. „Hnitmiðaðri hefði ádeilan kannski mátt vera, verkið ekki alveg svona langt en ég var þó ansi ánægð með þessa frumraun Halldórs Laxness Halldórssonar sem reynist ekki bara vera fyndinn.“
María Kristjánsdóttir skrifar:
Ég var ekki beint eftirvæntingarfull þegar ég mætti á frumsýningu á leikgerð á Atómstöðinni hans Halldórs Kiljans Laxness í Þjóðleikhúsinu á föstudaginn var. Enda óskaplega þreytt orðin á endalausri endurnýtingu á skáldsögum okkar helstu höfunda á leiksviðum. Og fáar sögur Laxness hafa verið endurunnar oftar en þessi. En þreytan lak af mér á sýningunni. Margt var þar svo fagurt og gleðilegt.
Leikgerðin sjálf eftir þau Halldór Laxness Halldórsson og Unu Þorleifsdóttur leikstjórann sem kallast Atómstöðin – endurlit er flott tilraun. Þar er að sjálfsögðu rakin af trúmennsku við Nóbelsskáldið saga norðanstúlkunnar Uglu sem kemur til höfuðstaðarins til þess að læra á orgel. Hún er í í vist hjá þingmanninum Búa Árland og hans skrautlegu efnafjölskyldu og kynnist veröldinni í hinni Reykjavíkinni í gegnum organistann sem hún sækir tíma hjá. En það sem er nýtt í leikgerðinni er að leikararnir í sýningunni taka sögu Laxness gamla nokkurs konar herskildi. Fólkið í bakgrunni sögunnar, alþýðan sem á þessum tíma er að berjast fyrir vöggustofum, menningarhöll og að skríllinn í valdstjórninni selji ekki landið fær að láta í sér heyra, gagnrýna Nóbelsskáldið og takast á við valdsmennina í sögunni og tala beint til áhorfenda. Það gerir samfélagið sem skáldsagan er sprottin úr sýnilegri. Og það sýnir líka að margt kallast þar á við okkar tíma: Húsnæðisskorturinn, auður hinna fáu, fátækt hinna mörgu og það að auðmagnið á sér enga fósturjörð. Hnitmiðaðri hefði ádeilan kannski mátt vera, verkið ekki alveg svona langt en ég var þó ansi ánægð með þessa frumraun Halldórs Laxness Halldórssonar sem reynist ekki bara vera fyndinn.
Pólski leikmyndahöfundurinn Mirek Kaczmarek notar brunavörnina/járntjaldið mikilvægt tákn fyrir tíma sögunnar til að opna sýn og loka á atburðarás. Allt sviðið er nánast nýtt, það rammað inn með háum, hvítum flekum, og á þeim leikur Mirek sér stundum skemmtilega með skugga. Hann hefur eins og góðum leikmyndateiknara sæmir augsýnilega stjórnað lýsingunni sem afmarkar og leiðir áfram framvinduna á þessu stóra auða svæði, gljáandi gráa gólfi, þar sem nokkrir kirkjubekkir staðsetja okkur í upphafi í kirkjunni í Eystridal og eru síðan nýttir fyrir alla aðra staði sem atburðarásin krefst. Líkt og fyrir kraftaverk hreyfast þeir einnig um sviðið án þess að áhorfandi verði þess var. Svo fá þeir áhorfanda líka til að hugsa til annars snilldar Pólverja, Kantors. Einungis organistinn fær sitt eigið pláss, lítinn vagn á hjólum fyrir plönturnar sínar sem hann keyrir inn og út af sviðinu.
Ég legg til að Þjóðleikhúsið fastráði Mirek Kaczmarek. Búningar hans eru líka ævintýri út af fyrir sig, sögnin í þeim stundum skýr og nálæg í tíma eins og samtaka atvinnurekenda búningur Búa Árlands. Glæsikjóll frúar hans aftan úr öldum lýsir einkar vel forneskjuhugarfari þeirrar ólánsömu konu. Samfestingar sem alþýðan er klædd í eru einnig lýsandi fyrir hugmyndafræði hennar. Stundum eru búningarnir eins og gáta svo sem hvítur búningur Uglu og lokkaflóðið gula sem prófessor einn réð fyrir mig í hléinu þegar hún sagði að hann minnti hana á Lísu í Undralandi. Auðvitað! Auðvitað var Reykjavík undraland fyrir stúlku að norðan! Síðar verður Ugla svolítið fyndin táknmynd sovéskrar sveitar og frjósemi. Búningur organistans og gervi er líka sterk sögn um persónuna, svartur leðurjakki yfir mjúkum undirkjól.
Una Þorleifsdóttir leikstjórinn tekur í þessari sýningu stórt skref fram á við bæði hvað varðar kóreógrafíu og vinnu með leikurum sem flestir eru ætíð inni á sviðinu. Hvernig hún vinnur út tengsl þeirra og sambönd í þessu stóra rými jafnvel þegar þeir eru ekki í fókus framvindunnar, eru komnir í bakgrunninn, er ákaflega skemmtilegt og hugmyndaríkt. Í þeirri samvinnu skapar hin unga Ebba Katrín Finnsdóttir svo sterka, sjálfstæða, skondna og hrífandi Uglu að stuðlabergið nærri lyftist upp í Þjóðleikhúsinu þegar henni var fagnað í lokin. Ég hef varla séð Björn Thors nákvæmari og betri en í hlutverki Búa Árland, hins týpíska fágaða stjórnmálamanns sem maður veit að er ekki treystandi yfir þröskuldinn þó að hann sé heillandi á yfirborðinu. Nákvæmur er líka Stefán Jónsson í hlutverki organistans og býr til alveg nýja og áhugaverðari mynd af organistanum en þá sem greypt er í huga þjóðarinnar. Birgitta Birgisdóttir sem hin óhamingjusama frú Árland sveiflar sér af snilld yfir í heift yfirstéttarinnar og taugaveiklunarköst. Þá fær Snorri Engilbertsson loksins að njóta sín á sviði Þjóðleikhússins sem kraftmikill alþýðuforingi oft í beinu sambandi við áhorfendur. Í beinu og flottu sambandi við áhorfendur er líka Hildur Vala Baldursdóttir sem alþýðustúlka og þó alveg glæný í leikhúsinu. Það er of langt mál að tekja upp allan leikarahópinn sem sýna flestir á sér nýja hlið en þó verður að segjast að Eggert Þorleifsson sem í hlutverki forsætisráðherrans kallaði fram hávær hlátrasköll í salnum ætti að draga úr ýkjustílnum svo að hlegið sé að persónunni en ekki með Eggerti.
Gísli Galdur Þorgeirsson ber ábyrgð á frumlegri tónlist og vali á söngvum í sýningunni sem koma æ ofan í æ skemmtilega á óvart. Að gera „Ísland ögrum skorið“ að leiðarstefi andspyrnunnar gegn bandaríska hernum og Nató var nokkuð sem ég var lengi að melta og flott var að setja þjóðsöng leikskólabarna „Maístjörnuna“ loks í sitt rétta samhengi, sýna upp úr hvaða jarðvegi hann er sprottinn.
Ég ætla að fara aftur að sjá þessa sýningu. Því hún á eftir að þéttast og ég hef vísast ekki náð utan um öll táknin, myndir og skírskotanir sem hún hefur upp á að bjóða. Ég þakka Þjóðleikhúsinu – og tek undir með ykkur: Ísland úr Nató og herinn á brott.