Mistök við lagasetningu gætu kostað ríkið fimm milljarða króna. Landsréttur dæmdi í dag Tryggingastofnun til að endurgreiða ellilífeyrisþega tveggja mánaða skerðingu á bótum þar sem lög hefðu ekki heimilað skerðinguna. Félag eldri borgara gerði athugasemdir við frumvarpið áður en lögin tóku gildi. Forstjóri Tryggingastofnunar segir að dómurinn verði skoðaður gaumgæfilega og hvort sótt verði um áfrýjunarleyfi til hæstaréttar.

Fyrsta janúar 2017 tóku gildi ný lög um almannatryggingar. Við þá lagabreytingu voru bótaflokkarnir ellilífeyrir og tekjutrygging sameinaðir undir heitinu ellilífeyrir. Í gömlu lögunum var aðeins heimilt að skerða það sem hét tekjutrygging og við nýju lagasetninguna voru gerð þau mistök að setja ekki inn ákvæði um að heimilt væri að skerða það sem héti ellilífeyrir. Eftir að mistökin urðu ljós var lögunum breytt. Breytingin tók gildi í mars sama ár. Þá var heimilt að skerða bætur vegna greiðslna úr lífeyrissjóði og annarra tekna. Engu að síður skerti Tryggingastofnun bæturnar allan tímann. Sigríður Sæland ellilífeyrisþegi fór í mál við Tryggingastofnun ríkisins og stóð Flokkur fólksins að málsókninni.

Sigríður tapaði málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en Landsréttur sneri dómnum og dæmdi henni í vil í dag. Tryggingastofnun er gert að endurgreiða Sigríði tæpar fjörutíu og tvö þúsund krónur sem þeim var ekki heimilt að skerða bætur hennar um. Heildarskerðing á bótum ellilífeyrisþega í þessa tvo mánuði árið 2017 er um fimm milljarðar króna sem ríkið gæti þurft að endurgreiða.

Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, baðst undan viðtali en segir að stofnunin muni fara gaumgæfilega yfir dóminn og ákveða svo næstu skref meðal annars hvort ákveðið verði að áfrýja til Hæstaréttar. 

Gerðu tvisvar athugasemdir

Félag eldri borgara gerði tvívegis athugasemdir við lagafrumvarpið árið 2016 og svo eftir að lögin tóku gildi árið 2017.

„Þegar við bentum Tryggingastofnun á það ósamræmi sem er í þeirra túlkun og svo lögunum sem voru samþykkt og komu til framkvæmda 2017 sem Félag eldri borgara hafði jú varað við og áttu að vera til einföldunar á lögunum um almannatryggingar en við sjáum núna hvernig sú einföldun var og er. Menn náðu ekki að halda utan um þetta og þetta var framkvæmdin,“ segir Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

Gísli segir viðbúið að fleiri öryrkjar reyni að fá skerðingar endurgreiddar. Það sé hins vegar ekki á vísan að róa.

„Það er annað mál í gangi varðandi búsetuskerðingu öryrkja og eldri borgara eða öryrkja sem svo verða eldri borgara, það mál er búið að vera í nokkra mánuði niðurstaða í því og það er ekki komið til framkvæmda. Ég veit ekki hvort menn telja að þau mál séu ekki nægilega skýr eða nægilega mörg þannig að hver um sig þurfi að sækja. En þetta sýnir kannski hvað þetta tekur allt langan tíma,“ segir Gísli.