Kjaradeila Starfsgreinasambandsins og sveitarfélaga er í hnút. Það gæti stefnt í hörð átök og jafnvel verkföll ef ekki tekst að höggva á hnútinn og semja. Tekist er á um lífeyrisauka fyrir félagsmenn Starfsgreinasambandsins sem sem starfa hjá sveitarfélögunum.

„Það er bara algjörlega ófrávíkjanleg afstaða okkar að við munum ekki ræða aðra þætti kjarasamningsins fyrr en sveitarfélögin fallast á að ræða það að jafna lífeyrisréttindi fyrir okkar fólk,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

Vonbrigði og reiði

Málið snýst um ákvæði um svokallaðan lífeyrisauka sem sveitarfélögin neita að kvitta undir. Þó svo að bæði Reykjavíkurborg og  ríkið hafi samið um lífeyrisaukann 2017. Flosi segir þetta mikil vonbrigði.

„Og mitt fólk í Eflingu og Starfsgreinasambandinu upplifa það sem svik miðað við fyrri loforð og umræður langt aftur í tímann. Viðbrögðin eru sambland af miklum vonbrigðum og reiði yfir þessari framkomu við okkar fólk.“

 Lífeyrisréttindin jöfnuð

En um hvað snýst þetta mál að mati hagfræðings ASÍ, Henný Hinz sem gæti sprengt allt í loft upp? Aðdragandinn er æði langur og snýst um  jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði. 2016 voru réttindin jöfnuð á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Samkomulag sem BSRB og ASÍ gerðu við SA, sveitarfélög og ríkið ári áður kveður á um að jöfnun lífeyrisréttinda sé ein af meginforsendum samkomulagsins. Samkomulagið sem gert var 2016 náði til opinberra starfsmanna  bæði ríkis og sveitarfélaga. Einn hópur opinbera starfsmanna var þó ekki með en það voru ríkisstarfsmenn sem eru félagar í félögum innan vébanda  ASÍ. Þeir höfðu greitt og greiða enn í lífeyrissjóði á almenna markaðinum en iðgjöld þeirra voru þó  þau sömu og annara opinbera starfsmanna. Jöfnun lífeyrisréttinda fól í sér að lífeyrisaldur opinbera starfsmanna hækkaði og ávinningur réttinda var ekki lengur jafn heldur aldurstengdur. Kannski flókið ,en þó að kerfinu hafi verið breytt halda opinberir starfsmenn öllum sömu réttindum til æviloka. Það má segja að það sama gildi ekki um þá 10 til 12 þúsund félaga Starfsgreinasambandsins sem líka eru opinberir starfsmenn.

„Í aðdraganda breytinga á lífeyriskerfi opinbera starfsmanna var alveg ljóst að það þyrfti þegar lífeyrisréttindi yrðu jöfnuð og gerðar yrðu þessar miklu breytingar þá þyrfti að taka sérstakt tillit til stöðu þessa hóps sem eru félagsmenn í stéttarfélögum innan ASÍ en eru í reynd opinberir starfsmenn,“segir Henný Hinz

Samið um lífeyrisaukasjóð

Til að tryggja opinberum félögum til dæmis í BSRB og BHM sömu lífeyrisréttindi til æviloka var  stofnaðir lífeyrisaukasjóður upp á 150 milljarða króna sem ríki og sveitarfélög standa undir.

„Þeim voru tryggð, getum við sagt, jafn verðmæt réttindi og áður með stofnun þessara lífeyrisaukasjóða.“

Sjóðirnir ná ekki til opinbera starfsmanna sem eru félagsmenn stéttarfélaga á almenna markaðinum. Í rammasamkomulaginu frá 2016 var gert ráð fyrir að fjármagni yrði varið í að jafna kjörin. Árið eftir 2017 sömdu félögin á almenna vinnumarkaðinum við ríki og Reykjavíkurborg um sérstakan lífeyrisauka sem sem í raun átti að gegna sama hlutverki og lífeyrisaukasjóðirnir. Ekki sjóður heldur iðgjaldaprósentutala sem þá var 5,85%.

„Þannig að þeir fá þá í staðinn fyrir lífeyrisaukasjóðina sérstakt viðbótarframlag til að tryggja jafnverðmæt réttindi. Starfsmenn sveitarfélaganna hins vegar eru eini hópurinn á vinnumarkaði núna sem ekki hefur verið samið við um þessa jöfnun. Þannig að þeir standa einir eftir,“ segir Henný Hinz.

Samið við ríkið og Reykjavíkurborg

Staðan er þessi. Ríkið og Reykjavíkurborg hafa samið um lífeyrisauka en  samninganefnd allra hinna sveitarfélaganna segir þvert nei. Verkalýðshreyfingin talar um svik, reiði og vill ekki ræða neitt annað fyrr en þetta mál er í höfn. Það gæti  komið til verkfalla en þó ekki fyrr en í haust eða eftir sumarfrí.

„Já, það er alveg möguleiki. Það er boðaður fundur hjá sáttasemjara 19. júní. Ég er hóflega svartsýnn fyrir þann. Á ekki von á því að það gerist mikið þar. Síðan finnst mér ekki líklegt að það gerist mikið í þessu fyrr en með haustinu. En ég held að við séum alveg tilbúin að gera það sem gera þarf til að standa með okkar kröfum,“ segir Flosi Eiríksson.