Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands í vetur, þar sem hún mun einbeita sér að ljóðlist. Í október er væntanleg ný ljóðabók eftir Steinunni sem ber heitið Dimmumót. Þar yrkir hún meðal annars um Vatnajökul og hvarf hans.

Steinunn fagnar 50 ára rithöfundarafmæli á þessu ári en fyrsta ljóðabók hennar, Sífellur, kom út 1969. Steinunn segir að það sé mikill heiður að taka við þessari stöðu. Til hennar var stofnað 2015 í því skyni að efla starf í tengslum við ritlist í íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hún fer ekki leynt með aðdáun sína á verkum Jónasar Hallgrímssonar. „Jónas hefur fylgt mér og hann kemur mér alltaf á óvart,“ segir Steinunn og tiltekur meðal annars þýðingarstarf Jónasar og nýyrði hans en hann var sem kunnugt er mikill orðasmiður. „Hann fylgir mér og ég er í góðum félagsskap þar því ég veit að Halldór Laxness var heillaður af honum og hinn gallharði módernisti og kannski eitt allra fremsta skáld okkar á seinni tímum, Sigfús Daðason, hann tók Jónas meir og meir eftir því sem á leið og hann sagði, Jónas kemur mér alltaf á óvart.“

Er hægt að læra að verða ljóðskáld?

Steinunn mun, eins og áður segir, einbeita sér að ljóðlistinni í nýja starfinu. Aðspurð hvort hægt sé að kenna fólki að yrkja segir hún að það þurfi að hafa nokkur atriði í huga. „Kannski númer eitt er það að ég er ekki í kennslustofunni til að hafa rétt fyrir mér. Ég er í kennslustofunni til þess að hver nemandi megi blómstra eins vel og mögulega er hægt, blómstra eins vel og fallega og á sínum forsendum. Það er hægt að kenna handbragð að einhverju marki og það er hægt að leysa hæfileika úr læðingi.“

Eins og áður segir eru á þessu ári liðin 50 ár frá útkomu fyrstu bókar Steinunnar, ljóðabókarinnar Sífellur sem kom út árið 1969, þegar Steinunn var aðeins nítján ára. Hún varð mjög snemma læs og las allt sem hún komst í enda segist hún tilheyra kynslóð Reykvíkinga sem hafði ekkert annað að gera en að hanga á bókasöfnum og í sundlaugum. „Ég held að þessi lestrarfýsn hafi hjálpað mér mjög mikið í því sem eftir átti að koma, og svo líka það að á þessum árum voru allir svo miklir orðsins menn og konur, eins og foreldrar mínir, systkini og vinir. Svo kynnist ég nútímaskáldskap í gegnum mömmu, hún hafði gaman af honum. Mér hefði ekki dottið í hug að yrkja svona í þunglyndi unglingsáranna ef ég hefði ekki verið búin að kíkja eitthvað á Hannes Pétursson og Stein Steinarr.“

Raddir úr vatna-jökla sveitum

Ný ljóðabók Steinunnar, Dimmumót, kemur út í október, titillinn skaftfellskur og þýðir ljósaskipti. Þetta er óhefðbundinn ljóðabálkur með heimildaívafi, sem fjallar um hörfandi Vatnajökul, veröld sem var og veröld sem verður. Náttúra Íslands hefur lengi verið veigamikill þáttur í verkum Steinunnar, hún hefur látið náttúruvernd og loftslagsmál til sín taka í ræðu og riti, og á meðal annars heiðurinn að orðinu hamfarahlýnun. „Ég myndi aldrei geta ort náttúruljóð eins og þau sem ég orti fyrir tuttugu árum eins og ástandið er núna,“ segir Steinunn. „Það er ekki hægt að vera bara íslenskur náttúruverndarsinni, þú þarft að hugsa um allan heiminn.“

Nú segist Steinunn horfa á Vatnajökul og fyllast sorg, það sé engin leið til baka. „Þegar ég var lítil að reka beljurnar á Seljalandi í Fljótshverfi þá horfði ég á jökulinn, Vatnajökul, og hann hefur alltaf verið stór persóna í mínu lífi, og jöklarnir voru tákn um eilífðina eins og kemur fram í mörgum af bókunum mínum og ljóðunum.“ Allt hafi þetta breyst í kringum árið 2000. „Núna horfi ég á þennan ástkæra jökul leysast upp fyrir augunum á mér, þetta tákn eilífðarinnar, sem er ekki lengur eilífð, og mér finnst eins og tíminn sé kominn á flakk.“

Steinunn hefur þegar tekið við starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands og í október heldur hún sérstakan hátíðarfyrirlestur við skólann. „Það er ekki til í því að ég líti um öxl. Ég horfi fram á veginn, ég er alltaf að gera eitthvað nýtt og ég vona að nýja ljóðabókin mín, sem kemur út upp úr miðjum október, sýni það.“

Rætt var við Steinunni Sigurðardóttur í Víðsjá.