Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ástæðan fyrir því að hún verði fjarverandi þegar Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna kemur til landsins og ræði meðal annars varnar- og öryggismál, sé ekki sú að heimsókn hans sé vandræðaleg fyrir flokkinn. Hún segist einfaldlega verða á fundi annars staðar.
„Það liggur fyrir að mér var fyrir margt löngu boðið að halda aðalræðuna á ársþingi Norrænu verkalýðshreyfingarinnar og eins og allir vita hef ég nú látið vinnumarkaðsmál mig varða. Það liggur líka fyrir að þessi heimsókn sem var skipulögð af utanríkisráðuneytinu hefur verið á töluverðu flakki á dagatalinu þannig að það hefur verið mjög erfitt að skipuleggja sig úr frá henni,“ segir Katrín.
Stjórnarandstöðuþingmenn hafa gagnrýnt utanríkisráðherra fyrir að upplýsa ekki um að ástæðan fyrir komu Pence hingað til lands væri meðal annars til að ræða landfræðilegt mikilvægi Íslands á norðurslóðum og aðgerðir Atlantshafsbandalagsins til að bregðast við auknum umsvifum Rússa. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis og þingmaður VG, sagði málið erfitt fyrir flokkinn. Katrín segir fjarveru sína þó ekkert tengjast þessari gagnrýni.
„Nei, alls ekki. Hins vegar er það svo að við höfum mörgum verkefnum að sinna. Ég átti nú góðan fund með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrr á þessu ári og átti sömuleiðis samtal við Donald Trump á NATO-fundi í fyrra. Ég get fullvissað alla um það að þegar Mike Pence kemur hingað - og ég vina bara að dagsetningin sé orðin endanleg - þá mun hann hitta stórskotalið íslenskra ráðamanna.“