Ríkislögmaður og starfsfólk félagsmálaráðuneytisins funda á morgun vegna dóms Landsréttar þar sem Tryggingastofnun er gert að greiða ellilífeyrisþega rúmar 41 þúsund krónur með dráttarvöxtum vegna ólögmætrar skerðingar á lífeyri. Félagsmálaráðherra segir að eftir þann fund verði tekin ákvörðun um það hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar. Ríkið gæti þurft að greiða alls 5 milljarða til ellilífeyrisþegar vegna málsins.

Á föstudag snéri Landsréttur við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Sigríðar Sæland Jónsdóttur sem snerist um lífeyrisgreiðslur í ársbyrjun 2017. Sigríður er móðir Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, en flokkurinn rak málið í nafni Sigríðar. Tryggingastofnun lækkaði greiðslur vegna tekna lífeyrisþega frá lífeyrissjóðum án þess að heimild hefði verið fyrir því í lögum. Í lok febrúar 2017 setti Alþingi lög sem heimiluðu skerðinguna afturvirkt. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki verið heimilt. 

Ríkið gæti þurft að greiða 5 milljarða

„Varðandi þetta einstaka mál að þá er það svo að ráðuneytið auðvitað fékk þetta bara á borð til sín eftir að dómurinn féll á föstudaginn og mun skoða þetta í dag og ég veit að það verður fundur með starfsmönnum ráðuneytisins með ríkislögmanni á morgun,“ segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra. 

Verður ákveðið á þessum fundi hvort að málinu verði áfrýjað?

„Ég held að það sé bara mikilvægt að leyfa þeim fundi að eiga sér stað og ráðuneytið mun fara yfir það með ríkislögmanni hvað hann leggur til í þessu efni og í framhaldinu mun þetta væntanlega koma inn á borð til ákvarðanatöku,“ segir Ásmundur Einar. 

Ríkið þarf að öllum líkindum að greiða ellilífeyrisþegum alls 5 milljarða, vegna skerðingarinnar þessa tvo mánuði. Aðspurður hvort það sé verjandi að áfrýja þessu máli segir félagsmálaráðherra: „Já það er auðvitað þannig eins og þú segir þetta er héraðsdómur sem er snúið við í Landsrétti og ég held að það sé bara mikilvægt að skoða málið vel, hvað þarna er á ferðinni - skoða það með ríkislögmanni áður en nokkuð er gefið upp um það og í framhaldinu verður tekin ákvörðun.“