Hann notar nefið og klærnar sem eru býsna góðar fyrir gröft og eiginlega eins og skóflur. Þannig tekst lundanum að grafa sér djúpa holu til að verpa í. Árleg lundatalning hófst í Akurey á Kollafirði í dag. Álegan er góð þetta árið og enn betri en í fyrra. Fjórur holur af fimm í Akurey reyndust hafa að geyma lunda og egg.

Vísindamenn héldu í árlega vorferð út í Akurey í morgun til þess að telja lunda í eynni. Það er gott í sjóinn þennan morguninn og varla sést hvítt í báru. Þetta er tíunda árið sem Erpur Snær Hansen fer út í Akurey til að kanna ástand lunda.

Erpur kannar stöðuna í tólf eyjum um landið en gott er að byrja árlegan könnunarleiðangurinn í Akurey þar sem vorar snemma. Það þarf að fara gætilega frá borði og á land því nóg er af sleipum þaranum. Sílamávur og frændur hans taka það óstinnt upp að ró þeirra sé raskað á sunnudagsmorgni.

Erpur og félagar hafa merkt lundaholurnar og geta þannig borið saman varp milli ára. Þetta er engin skrifborðsvinna heldur henda menn sér á jörðinna milli þúfna.

Sérsmíðuð lundamyndavél

Erpur notar sérsmíðaða bandaríska holumyndavél. Lindan er á endanum á langri snúru og svo sést myndin á skjá sem er í nokkurs konar gleraugum sem sett eru fyrir augun. 

„Það er myndavél hérna inni í sem sér á infrarauða spektrúminu. Lundinn sér ekki ljósið. Þannig að hann sér okkur aldrei en við sjáum hann,“ segir Erpur.

Svo þarf að reikna út hversu hátt hlutfall holna er með fugli í.

„Það er dálítil aukning frá því í fyrra. Það var 72% minnir mig í fyrra og er komið upp í 80% núna þannig að þeim er að fjölga holunum sem er orpið í,“ segir Erpur.

Kanntu einhverja skýringu á því?

„Já. Hérna í Akurey höfum við verið að sjá síli tvö ár í röð og töluvert mikið af því. Það var mjög góður varpárangur í ár, bara gleðifréttir. Faxaflóinn hefur verið að sýna batamerki hjá sílinu,“ segir Erpur.

Lundinn er býsna góður í að byggja sér heimkynni. Holurnar eru yfirleitt rúmlega metradjúpar en geta orðið allt að fjórir metrar að lengd.

Af hverju þarf lundinn svona djúpa holu?

„Hann er vernda sig. Þá geta báðir foreldrarnir aflað fæðu og skilið ungann eftir í öruggu skjóli fyrir mávum og rándýrum,“ segir Erpur.

Hvernig fer  hann að því að grafa holuna?

„Hann notar nefið að einhverju leyti. En hann er með mjög góðar graftarklær, svona hálfgerðar skóflur, og getur stillt þær í allar áttir þannig að hann er ansi vel búinn í þetta,“ segir Erpur.

Slást til blóðs um holur

Sumir lundar eru latir og nenna ekki að grafa sér holur heldur reyna að stela holum annarra fugla. Því er ekki vel tekið heldur brjótast út slagsmál og stundum er slegist upp á líf og dauða.