Hlín Agnarsdóttir segir að umfjöllunarefni Dúkkuheimilisins - annars hluta sé bæði gamalt og nýtt en óvænt og djörf uppfærsla Unu Þorleifsdóttur leikstjóra geri sýninguna þess virði að henni sé veitt sérstök eftirtekt.
Hlín Agnarsdóttir skrifar:
Dúkkuheimili - annar hluti er skrifað af bandaríska höfundinum Lucas Hnath árið 2017 en það er sjálfstætt framhald af verki Ibsens frá 1879 sem endaði með frægasta hurðarskelli leikhússögunnar. Verk Hnaths gerist skömmu fyrir aldamótin 1900 og fjallar í grófum dráttum um það sem gerist þegar Nóra bankar aftur upp á fyrrverandi heimili sínu fimmtán árum eftir að hún yfirgaf eiginmanninn Þorvald og börn sín þrjú.
Lucas Hnath gefur sér sem frumforsendu að Nóra banki nú upp á til þess að biðja Þorvald um skilnað sem hefur aldrei farið formlega fram. Án skilnaðarpappíranna getur hún tæpast haldið áfram að lifa sem frjáls kona í samfélagi feðraveldis. Hún er sem sagt ekki komin aftur til að taka saman við Þorvald eins og einhverjir gætu haldið og vonað. Nóra er orðin sjálfstæð kona, vel stæður rithöfundur, skrifar að vísu undir dulnefni en nú hefur dulnefni hennar verið afhjúpað og í ljós kemur að hún er enn gift kona og má því ekki samkvæmt ríkjandi hjúskaparlögum stunda eigin atvinnurekstur. Hún á því yfir höfði sér að verða dregin fyrir dómstólana fyrir lögbrot.
Hugmyndafræðileg umræða um kvenfrelsi og hjónaband
Í þessari óvæntu heimsókn Nóru komast þau hjónin að sjálfsögðu ekki hjá því að eiga skilnaðarsamtalið sem aldrei fór fram í verki Ibsens. Og það er í uppgjöri hjónanna, samtalinu um frelsi og ábyrgð jafnt í hjónabandi sem við hjónaskilnað sem Lucas Hnath leitar fanga fyrir skrif sín. Leikrit hans er sem sagt leikrit um leikrit Ibsens sem hann vísar inn í af og til en gefur sér þó glænýjar forsendur.
Dúkkuheimili - annar hluti samanstendur aðeins af fjórum persónum, þeim hjónunum Nóru og Þorvaldi og síðan gefur hann barnfóstru hjónanna Önnu Maríu og uppkominni dóttur þeirra, Emmu, rödd. Í gegnum þessar fjórar raddir verður leikritið að einhvers konar hugmyndafræðilegri umræðu um kvenfrelsi og hjónaband. Öll átök verksins hverfast um ólíkar skoðanir þeirra á brotthlaupi Nóru úr hjónabandinu sem gerir það að verkum að samúð áhorfandans færist stöðugt til þeirrar persónu sem hefur orðið hverju sinni. Höfundur dregur ekki taum neinnar einnar persónu fram yfir aðra en gengur þó út frá því sem gefnu að Nóra sé bófinn í dramanu. Það er henni að kenna að líf þeirra allra er eins og það er, ekki síst líf Þorvaldar sem hefur ekki borið sitt barr eftir að hún yfirgaf heimili og börn.
Umræða verksins er bæði gömul og ný en engu síður í fullu gildi í dag, en hún nær lengra því hún er líka siðfræðilegs eðlis og beinir augum okkar að ábyrgð hvers einstaklings í nánum samskiptum við aðra. Textinn einkennist af nútímalegu og oft hnyttnu tungutaki sem tengir tíma og anda verksins við orðræðu dagsins í dag. Fyrir bragðið verður inntak verksins nærtækara nútímaáhorfendum, jafnvel þótt það orki stundum úrelt og gamaldags.
Uppfærslan ögrar textanum
Leikstjórinn Una Þorleifsdóttir lætur sér ekki að duga að endurskapa raunsæislegan texta Hnaths á sviðinu og fer ekki hefðbundar eða einfaldar leiðir og forðast allan natúralisma. Hún ögrar texta höfundarins, gengur þvert á hann, fer óvænta og djarfa leið sem gerir þessa sýningu þess virði að henni sé veitt sérstök eftirtekt. Og henni tekst að virkja alla aðstandendur sýningarinnar með sér í þeim leiðangri.
Leikmynd Barkar Jónssonar er stór og fyllir upp í allt leiksviðið bæði á hæð og breidd. Hún minnir frekar á grafhýsi eða kalt og þögult minnismerki um stofnun eða kerfi sem er ekki lengur til nema þá helst í huga Þorvaldar. Hann hefur hreinsað burtu allt sem minnir á Nóru, ekki aðeins húsgögn heldur hljóðfæri, allt sem gefur heimilinu líf. Í abstrakt leikmynd Barkar leynast þó ýmis rými, afkimar og ósýnilegir rangalar sem Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsir meistaralega og bætir þar með nýrri vídd í þau sjónrænu áhrif sem þessi skúlptúr Barkar framkallar.
Og í þessu minnismerki um úrelt kerfi dansa fyrrverandi brúður allra dúkkuheimila, upptrekktar eftir ákveðnu munstri á milli þess sem þær reyna að tala og tjá sig með orðum. Sveinbjörg Þórhallsdóttir vinnur hér aftur sem danshöfundur með Unu en síðasta afrek þeirra var frumleg uppsetning á Tímaþjófinum í Þjóðleikhúsinu. Sveinbjörg notast líka við abstrakt hreyfingar í sinni kóreógrafíu sem mynda andstæðu við vitsmunalega orðræðu verksins.
Una hefur líka kallað til liðs við sig frábæran tónlistarmann, nöfnu sína Unu Sveinbjarnardóttur sem skapar kraftmikla og ögrandi tónlist og er hún í fullu samræmi við óvænta og óhlutbundna uppsetninguna en í henni örlar samt á gömlum hefðum, gott ef hún minnti ekki á köflum á sjálfan Bach. Þannig brúar músíkin tenginguna milli þess gamla og nýja í verkinu á sama hátt og búningar Stefaníu Adolfsdóttur sem voru mjög táknrænir fyrir hverja persónu og úthugsaðir í efnisvali, formi og litum. Mýktin og dýptin í búningum og öllu útliti persónanna mynda andstæðu við kalda og harðneskjulega leikmyndina. Hér er allt útfært af þekkingu og listrænni færni og í fyllsta samræmi við grundvallarhugmynd og lausnir leikstjórans.
Það var sérstakt tilhlökkunarefni að sjá þessa sýningu ekki síst vegna þess að sömu leikarar léku þau Nóru og Þorvald nú og í rómaðri uppsetningu Borgarleikhússins á Dúkkuheimili Ibsens fyrir örfáum árum. Og þau Unnur Ösp Stefánsdóttir og Hilmir Snær Guðnason koma aftur sterk til leiks og vekja aðdáun.
Unnur Ösp sýnir okkur Nóru sem hefur lifað lífinu, notið þess að vera til, þroskast en samt haldið í æsku sína. Hún er stelpuleg í fasi eins og konur eru í dag á hennar aldri, en aldrei barnaleg þótt hún sé sjálfhverf. Hreyfingar og talandi leikkonunnar endurspegla sjálfsöryggi Nóru allt frá upphafi. Hún er sú eina sem fær að hreyfa sig frjálst um sviðið í dumbrauðum flauelskjól sem vitnar um lífsnautn. Það vottar að vísu fyrir vonleysi og örvæntingu hjá þessari Nóru, jafnvel eftirsjá á köflum. Unnur Ösp gerir því öllu skil, en verður kannski full dramatísk á köflum. Ef til vill var þar sami leikurinn á ferð og í músíkinni, gamall og nýr leikstíll mætast á miðri leið milli Dúkkuheimilanna tveggja.
Þorvaldur í meðförum Hilmis Snæs Guðnasonur hefur elst mun meira en Nóra enda hefur hann ekki fundið sína eigin rödd eins og hún. Hann situr uppi með heimilið og börnin. Rödd hans hefur koðnað niður og orðið biturleikanum að bráð. Hér er Þorvaldur orðinn að fórnarlambi Nóru, konunnar sem yfirgaf hann og börnin. Hlutverkin hafa snúist við.
Sterkur leikur
Hilmi Snæ tekst fullkomlega að skapa mynd af brjóstumkennanlegum karlmanni sem hefur múrað sig inni í vonbrigðum og ótta við höfnun og breytingar. Þessa tilfinningafjötra sjáum við bókstaflega utaná Hilmi Snæ um leið og hann birtist á leiksviðinu fyrsta sinni og dimmblár flauelsbúningurinn undirstrikar það vel. Öll líkamsbeiting hans og svipbrigði bera vitni um lokaðan huga og innra líf sem hefur staðnað. Það er ekki fyrr en rétt undir lokin þegar kveiktur er smá vonarneisti um endurnýjun, að við sjáum inn í kviku Þorvaldar og finnum hvað líf karlmannsins er erfitt í heimi þar sem konur hafa fundið sér ný hlutverk sem hann hefur ekki ákveðið hvert eigi að vera.
Í hlutverki gömlu barnfóstrunnar, Önnu Maríu, var ein af elstu og reyndustu leikkonum Borgarleikhússins, Margrét Helga Jóhannsdóttir. Hvað eftir annað tókst henni að vekja hlátur áhorfenda með hnyttnum tilsvörum og öruggum leik. Jafnframt dró hún upp trúverðuga mynd af húsbóndahollri konu sem er algerlega á öndverðum meiði við kvenfrelsishugmyndir Nóru.
Ebba Katrín Finnsdóttir er nýliðinn í hópnum og kemur skemmtilega á óvart með leik sínum í hlutverki dótturinnar Emmu. Þótt hún sé ung að árum hefur hún gert upp hug sinn og ætlar að giftast af því hún trúir að í hjónabandi farnist henni best. Leikur Ebbu Katrínar einkenndist af afslöppuðum og sjálfumglöðum þótta þess sem telur sinn málstað réttastan og bestan. Hún er unga sólin sem skín ofurbjartsýn á framtíðina í sínum heiðgula kjól, algerlega laus við efasemdir um hjónabandið.
Hugsað um málin frá ólíkum hliðum
Það má eflaust deila lengi um hvort flokka leikrit Lucasar Hnath sem feminískt verk á sama hátt og enn er deilt um hvort verk Ibsens hafi verið það. Ljóst er að bak við skrif hans liggur mikil hugsun og vinna, höfundurinn knýr áhorfandann til að hugsa málin út frá mörgum hliðum. Óumdeilanlegt er þó að uppsetning Borgarleikhússins er einstakt og frumlegt sviðslistaverk sem ástæða er að gefa sérstakan gaum. Það er alltaf ánægjulegt þegar leikhúsið býður áhorfendum sínum upp í vitsmunalegt og krefjandi ferðalag eins og hér er gert.