Ramy Youssef er 28 ára gamall grínisti sem hefur getið sér gott orð að undanförnu fyrir uppistandsrútínu sína. Hann þreytir nú frumraun sína á sjónvarpsskjánum í gaman-dramaþáttunum Ramy þar sem hann leikur skáldaða útgáfu af sjálfum sér, auk þess að skrifa handrit að sjö af tíu þáttum.
Áslaug Torfadóttir skrifar:
Þættirnir eru sýndir á Hulu og eru fyrstu bandarísku gamanþættirnir sem fjalla um upplifun bandarískra múslima, en Youssef er fyrstu kynslóðar amerísk-egýpskur og iðkandi múslimi.
Þættirnir byggja á reynslu Youssef og fjölskyldu hans og vina og varpa ljósi á daglegt líf innflytjenda og múslima í New Jersey þar sem gildi föðurlandsins og ameríski draumurinn takast á. Þessi togstreita er sérstaklega áberandi í aðalpersónunni Ramy, sem leikin er af Youssef, sem er tvöfalt týndur í lífinu, hann er bæði að berjast við hið týpíska stefnuleysi aldamótakynslóðarinnar og það hvernig hann getur iðkað trú sína heiðarlega án þess að sleppa algjörlega öllum þeim lystisemdum sem lífið í Ameríku hefur að bjóða ungum manni. Ramy og systir hans Dena búa ennþá hjá foreldrum sínum sem eru mjög hefðbundin og ætlast til þess að systkinin hegði sér í samræmi við það sem tíðkaðist í Egyptalandi þegar þau fluttu þaðan. Vinir Ramy, þeir Mo og Ahmed, hafa hins vegar náð betra jafnvægi og skilja ekki alveg af hverju Ramy þarf að flækja all svona fyrir sér og æskuvinur hans Steve, sem þjáist af vöðvahrörnunar sjúkdómi og er bundinn við hjólastól, er duglegur að minna hann á að lífið er núna og að hætta þessu væli.
Uppbygging þáttana minnir um margt á þætti eins og Atlanta og Master of None þar sem stíllinn er laus og sveigjanlegur og fókusinn er ekki alltaf á aðalpersónuna heldur fáum við að sjá fleiri hliðar á fólkinu í kringum hana. Líkt og Ern í Atlanta er Ramy klár strákur sem gæti gert svo margt en hefur einhvern veginn ekki náð að vinna úr hæfileikum sínum og eins og Dev í Master of None hafa strangar kröfur foreldra hans leitt til þess að honum líður eins og hann sé aldrei nógu góður sama hvað hann gerir. Ramy vill greinilega standa sig en hefur ekki endilega hugmynd um það hvað það er nákvæmlega sem hann vill standa sig í og hann er frábært dæmi um þessa sérstöku þráhyggju karlmanna á ákveðnum aldri sem þurfa svo mikið að leita að sjálfum sér að þeir ná aldrei að tengjast öðrum almennilega. En eins og frændi Ramy í Cairo segir þá erum við öll týnd, og stakir þættir eins og þeir sem fókusera á móður og systur Ramy eru gott dæmi um hvernig upplifun kvennana í kringum Ramy er allt öðruvísi en hans og hversu blindur hann er á hana í sinni sjálfhverfu leit.
Dena systir hans þarf að kljást við þann þrönga ramma sem henni er settur af foreldrum sínum, en jafnvel þó að hún sé að ljúka mastersgráðu í háskóla þá er það ennþá mikilvægast fyrir foreldra hennar að hún giftist sem fyrst og á meðan Ramy fær nokkurn veginn að gera það sem hann vill þá þarf hún að lúta ströngum reglum um það hvað hún megi gera og með hverjum. Þrátt fyrir ráð bróður síns um að gera bara uppreisn gegn foreldrunum þá rekst Dena á það að hlutirnir eru ekki svo auðveldir utan heimilisins og að í augum bandarískra karlmanna er hún ekkert meira en framandi hlutur sem spennandi er að leika við en hún er svo sannarlega ekki ein af þeim. Þessi utanveltutilfinning er svo skoðuð enn betur í þættinum um móður Ramy og Denu, Maysa. Hún er einmana, enda vanrækt af eiginmanni sínum sem er dottinn í þægilega rútínu vinnu og sjónvarpsgláps, og börnin hennar eru fullorðin og þurfa ekki lengur á henni að halda. Hún er greinilega ekki vinamörg og grípur til þess ráðs að fara að keyra leigubíl til þess eins að hitta nýtt fólk. En fæstir hafa áhuga á að spjalla við leigubílstjórann og það er ekki fyrr en hún tekur upp í franskan mann sem við fáum að sjá glitta í konuna sem Maysa hefur einu sinni verið. Hiam Abbas sem leikur Maysu er hreint út sagt stórkostleg í þessum þætti og tekst að koma til skila áratuga einsemd og vonbrigðum sem nísta hjartað. Það er í þessum þáttum, auk fallegs þáttar sem fjallar um hryðjuverkaárásirnar 11. September, þar sem Ramy skín skærast og veitir okkur innsýn inn í menningarheim sem sjaldan sést í sjónvarpi.
Þrátt fyrir að vera frumkvöðull í þáttagerð um múslima í Bandaríkjunum segist Youssef alls ekki vilja tala fyrir hönd allra múslima, heldur sé hann einungis að vinna með sína eigin reynslu. Þessi þröngi fókus er kostur, enda falla þættirnir aldrei í þá gryfju að verða of pólitískir eða predikandi, heldur eru þeir umfram allt kostuleg saga samheldinnar fjölskyldu sem er að reyna að finna leið til þess að halda í ræturnar á sama tíma og þau fóta sig í síbreytilegum heimi þar sem enginn kann reglurnar lengur og allt er í boði. Pílagrímsferð Ramy til Egyptalands sýnir okkur svo hættuna á því að halda of fast í þær mýtur sem við búum okkur oft til um okkur sjálf. Hann ætlar að snúa aftur til fyrirheitna landsins þar sem allir eru fullkomnir, trúræknir múslimar sem geta sagt honum hvað hann eigi að gera en þegar þangað er komið kemst hann að því að Egyptaland er alls ekki svo frábrugðið New Jersey því tímarnir breytast og mennirnir með og enginn getur gefið okkur svörin nema við sjálf.