Fréttamenn RÚV, þeir Björn Malmquist og Freyr Arnarson, héldu til Ísrael í tengslum við Eurovision keppnina, en ferðuðust einnig um Ísrael og Palestínu til að kynna sér stöðu mála á Vesturbakkanum og víðar.
Landtökubyggðir á Vesturbakkanum
Um helmingur Ísraela er ósáttur við stefnu stjórnvalda í Jerúsalem um landtökubyggðir á Vesturbakkanum, segir ísraelskur stjórnmálafræðingur sem reglulega mælir afstöðu almennings þar í landi. Íbúum hefur fjölgað jafnt og þétt í landtökubyggðum á undanförnum árum og áratugum.
Staða mála á Vesturbakkanum er flókin og skiptist yfirráð svæðisins í þrennt. Á svæði Ísraelsmanna hafa landtökubyggðir aðallega verið reistar. Fyrstu árin eftir 1967 bjuggu þar aðeins nokkur þúsund manns; núna um sex hundruð þúsund, ef austurhluti Jerúsalem er talinn með.
Opinber afstaða stjórnvalda í Jerúsalem er að Vesturbakkinn sé umdeilt svæði. Sameinuðu þjóðirnar og margir aðrir tala um hernumin svæði. Stjórnvöld í Ísrael hafa ítrekað verið gagnrýnd á alþjóðavettvangi fyrir að leyfa landtökubyggðir og það er ekki síður deilt um þær í Ísrael.
Umdeildar landtökubyggðir í Hebron
Umdeildustu landtökubyggðir Ísraela á Vesturbakkanum eru í borginni Hebron, þangað sem um átta hundruð gyðingar hafa flutt á undanförnum áratugum. Nokkur hundruð hermenn eru þar til að gæta öryggis og takmarka samgang landtökufólks og þeirra ríflega tvö hundruð þúsund Palestínumanna sem búa í borginni.
Sjónarmið landtökufólks í Hebron eru umdeild. Landtökufólkið býr í skjóli nokkur hundruð ísraelskra hermanna, og aðgerðir hersins til að aðskilja Gyðinga og Palestínumenn þarna hafa leitt til þess að markaðstorg og áður fjölfarnar götur í miðborg Hebron eru auðar og yfirgefnar. Þar fara fáir um nema landtökufólk, hermenn og þeir sem koma til að skoða.
Hundruð þúsunda í flóttamannabúðum
Fimm milljónir Palestínumanna eru skráðar sem flóttafólk og yfir átta hundruð þúsund þeirra búa í flóttamannabúðum á sjálfstjórnarsvæðum á Vesturbakka árinnar Jórdan. Stór hluti fólksins er fæddur í þessum búðum, og það býr þar flest við ömurlegar aðstæður.
Umhverfismál fyrir botni Miðjarðarhafs
Mengun og umhverfismál tengja Ísraelsmenn og Palestínumenn órjúfanlegum böndum, segir stjórnandi umhverfissamtaka sem starfa á báðum þessum svæðum. Aukið samstarf sé bráðnauðsynlegt, og gæti gefið fyrirheit um að hægt verði að byggja upp traust að nýju.
Á Gaza ströndinni búa um tvær milljónir Palestínumanna, nánast innilokaðir við mjög erfiðar aðstæður. Það er þó ekki eina vandamál þessa fólks, neysluvatnslindir eru af skornum skammti og skólp rennur óhreinsað í sjóinn.