Einn af föstu punktunum um verslunarmannahelgina er fjölskylduhátíðin Sæludagar í Vatnaskógi. Fyrir utan hefðbundna dagskrárliði eins og tónleika, leiki og brekkusöng er boðið upp á forvitnileg erindi um streitu, forréttindi og frekju og loftslagsmál.

Verslunarmannahelgin í Vatnaskógi ætti að vera vænlegur áfangastaður fyrir fjölskylduna því að þar er lögð mikil áhersla á að allir í fjölskyldunni geti notið sín. Þar verða Sæludagar nú haldnir í tuttugasta og sjöunda sinn á vegum félagasamtakanna KFUM & KFUK. Vatnaskógur er í Hvalfjarðarsveit og býður vatnið, skógurinn og fjöllin í kring upp á ótæmandi möguleika til spennandi útiveru og leikja. 

„Við hérna í Vatnaskógi erum orðin gríðarlega spennt enda stutt í að svæðið opni og fjörið hefjist,“ segir Ögmundur Ísak Guðmundsson verkefnastjóri Sæludaga. „Þetta hefur sannarlega fest sig í sessi og þetta er tuttugusta og sjöunda hátíðin sem haldin er með þessu sniði og hún stækkar og stækkar með hverju árinu. Ég myndi segja að fólk með börn og alla fjölskylduna eigi að geta mætt í Vatnaskóg, notið þess að vera saman og tekið þátt í ótrúlega fjölskylduvænni dagskrá sem við bjóðum upp á alla helgina,“ segir Ögmundur og ítrekar að allir séu velkomnir. Fólk þurfi ekki að vera félagar í KFUM og KFUK til þess að njóta sælunnar í Vatnaskógi.

Dagskráin er æði fjölbreytt á Sæludögum og í bland við ýmsa fjölskylduleiki, brekkusöngva, atriði Lalla töframanns og tónleika með Páli Óskari er boðið upp á afar fræðandi erindi um ýmis mál. Þar má nefna umræður Elínar Kristínar Guðmundsdóttur mannauðsráðgjafa um streitu og samskipti, erindið Ég á ‘etta, ég má ‘etta sem fjallar um forréttindi, frekju og fýlu. Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags hjá Veðurstofu Íslands, bryddar upp á erindinu Loftlagsbreytingar, hvað ætti að gera og séra Grétar Halldór Gunnarsson veltir upp spurningunni Má manneskjan trúa? Frekari upplýsingar um dagskrána má finna hér.

„Við gerum ráð fyrir svona þúsund manns en staðurinn tekur svo sem við fleirum, það eru engin takmörk og allir velkomnir þannig að við vonumst til að sjá sem flesta,“ segir Ögmundur sem hefur síðustu daga unnið hörðum höndum að því að breyta staðnum úr hefðbundnum sumarbúðum í alvöru hátíðarsvæði. „Það þarf að breyta staðnum og það hefur verið hellingur af vösku fólki frá því á þriðjudaginn, þegar sumarstarfið kláraðist hér, að vinna við það. Við erum tilbúin að taka á móti öllum kl. 19 í kvöld. Við settum upp risastórt svið og settum upp salinn í íþróttahúsinu, tjaldsvæðin eru klár þar sem vanalega eru fótboltavellir. Það þarf sem sagt að huga að ýmsu sem þarf að breyta fyrir helgina,“ segir Ögmundur.

Það má reikna með að hápunkti helgarinnar verði náð á laugardagskvöldið þegar Páll Óskar treður upp. „Það hefur lengi verið draumur að fá hann hingað. Þetta verða ekta fjölskyldutónleikar, vímulausir tónleikar og hátíðin verður áfengis- og vímuefnalaus. Við leggjum upp með að fólk komi og geti notið þess að vera saman. Páll Óskar er svo sannarlega maðurinn sem getur haldið uppi stuðinu. Þetta verður bara frábært, brjáluð dagskrá sem byrjar í kvöld og stendur fram yfir sunnudagskvöld þegar við klárum með brekkusöng og varðeld,“ segir Ögmundur Ísak Guðmundsson verkefnastjóri Sæludaga spenntur fyrir helginni framundan.