Franskir ferðamenn á þremur Dacia Duster-jepplingum eiga yfir höfði sér sektargreiðslu vegna utanvegaaksturs við Þríhyrningsá sem er á leiðinni frá Möðrudal og inn í Vatnajökulsþjóðgarð um helgina. Þetta staðfestir varðstjóri hjá lögreglunni á Egilsstöðum. Líklegt er að sumar skemmdirnar eftir akstur ferðamannanna séu óafturkræfar.
Ferðamennirnir voru í samfloti á bílunum þremur. Þegar þeir komu að Þríhyrningsá var þar bilaður bíll á vaðinu þar sem farið er yfir ána. Í spilaranum hér að ofan er hægt að skoða vaðið við Þríhyrningsá en Lára Ómarsdóttir, fréttamaður, var þar í síðustu viku.
Ferðamennirnir tóku þá óskynsamlegu ákvörðun að fara út af veginum og yfir ána á öðrum stað og unnu með akstri sínum talsverðar skemmdir á gróðri og sandmelum sem þar eru.
Hæstu sektir sem fólk þarf að greiða vegna utanvegaaksturs eru hálf milljón en sú lægsta 50 þúsund. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru skemmdirnar ekki jafn slæmar og þær sem urðu í Kerlingarfjöllum þar sem frönskum ferðamönnum á tveimur jeppum var gert að greiða 200 þúsund krónur hvor. En sektirnar í þessu tilviki verða þó ekki í lægsta flokknum.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er von á ferðamönnunum frönsku í skýrslutöku hjá lögreglunni á Egilsstöðum á morgun.