„Fræin sem eru sáð í svona litlu galleríi skipta sköpum,“ segir Snorri Ásmundsson myndlistarmaður. Hann er að opna myndlistarsýningu í Galleríi Úthverfu á Ísafirði. Galleríi sem hefur verið starfrækt við Aðalstræti á Ísafirði síðan 2013. Snorri dvaldi í tvær vikur á Ísafirði áður en hann opnaði sýninguna í Úthverfu og hefur málað fólk sem hann komst í kynni við á Ísafirði, eða sem tengjast Ísafirði.

 

Gunnar Jónsson og Elísabet Gunnarsdóttir reka Gallerí Úthverfu og hafa gert frá því fljótlega eftir að Gunnar flutti aftur á Ísafjörð eftir nám.

„Þá fannst mér það vera mér lífsnauðsynlegt að það væri myndlistargallerí hér svo ég gæti búið á Ísafirði,“ segir Gunnar. 

Galleríið hefur undið upp á sig og sumir myndlistarmannana dvelja einnig í listavinnustofum sem eru í sama húsi og galleríið, geta þá orðið fyrir hughrifum af umhverfinu. Myndlistarmenn eru ýmist íslenskir eða erlendir og vinna ýmist sýningarnar inn í rýmið eða koma með verkin með sér.