Fræðsla er besta vopnið gegn utanvegaakstri, að sögn landvarða á miðhálendinu. Björgunarsveitarmenn á hálendisvaktinni segja æ algengara að koma þurfi ökumönnum í vanda til aðstoðar. Þeir séu margir hverjir vanbúnir eða skorti hæfni til að aka í óbyggðum.

Einungis tíminn læknar þessi sár

Þegar fjallvegir um friðlandið að Fjallabaki voru opnaðir í vor komu í ljós mörg ljót sár eftir utanvegaakstur. Það getur tekið slík hjólför nokkra tugi ára að gróa. Hringur Hilmarsson, hefur verið landvörður í friðlandinu í um fjögur sumur. Hann segir að það sé eitt stærsta verkefni landvarða þar að reyna að sporna gegn og lagfæra ummerki eftir utanvegaakstur. „Við reynum af okkar bestu getu að afmá för, t.d. að raka för í sandi, en þegar svona för eru í miklum gróðri þá er aðallega bara tíminn sem lagar þau för,“ segir Hringur.

Umhverfisstofnun hefur látið loka fyrir umferð að Sauðleysuvatni vegna slæms ástands vegarins. Ólíklegt er að vegurinn verði opnaður aftur fyrr en á næsta ári. Vegna þess hversu vegurinn var illa farinn voru ökumenn teknir að aka utan vegar, með tilheyrandi skemmdum. Til stendur að færa vegstæðið austar, samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun. 

Kærum fyrir utanvegaakstur fækkaði milli ára

„Besta vopnið okkar er fræðsla og ég myndi segja að það hafi bara gengið ágætlega vel. Ég myndi telja að við sjáum mun,“ segir Hringur. Og tölurnar styðja það. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun hefur lögreglukærum fyrir utanvegaakstur farið fækkandi undanfarið. Í fyrra voru 40 slík mál kærð, en árið áður voru kærurnar næstum tvöfalt fleiri. Það sem af er þessu ári hafa ellefu tilvik verið kærð til lögreglu.

Hringur segir að utanvegaakstur uppgötvist oftast eftir að ökumenn eru löngu horfnir á braut. Þó gerist það einstaka sinnum að landverðir grípa menn glóðvolga. „Ef þetta er eitthvað smávægilegt þá kannski bjóðum við honum að raka upp eftir sig og fræðum hann um af hverju það er bannað að keyra utan vegar, en að sjálfsögðu lendum við líka í því að þurfa að tilkynna til lögreglu og kæra sum mál,“ segir Hringur.

Æ fleiri ökumenn á bílaleigubílum í vanda

Auk landvarðanna halda björgunarsveitirnar úti hálendisvakt á svæðinu. Verkefni þeirra eru ærin. „Við erum að draga hérna bíla upp úr vöðum og ferja fólk úr biluðum bílum, hefja fyrstu viðbrögð við týndum einstaklingum sem að kannski fara út af slóðum hérna á hálendinu, og svo ef það verða hérna slys, hvort sem að það er einhver sem dettur eða umferðarslys eða hvers konar slys, þá auðvitað erum við að bregðast við því, segir Haraldur Haraldsson, formaður Björgunarsveitarinnar á Suðurnesjum, sem nú sinnir gæslu í Landmannalaugum.

Haraldur segir æ fleiri verkefni snúa að ökumönnum á bílaleigubílum sem lenda í vanda vegna þess að þá skorti hæfni til að aka á hálendinu. „Og kannski bara ekki í stakk búin til að fara upp á hálendið á þeim bílum sem þeir eru að leigja á bílaleigunum,“ segir Haraldur.