„Það er þessi hlutlæga, valdmannslega rödd – ‚svona er þetta bara!‘ – sem minnir mig helst á heila sem að bobblar í spíritus. Hún er algjörlega aftengd hinu mannlega og hinu persónulega,“ segir Bergsveinn Birgisson rithöfundur í viðtali við Víðsjá um það hvernig akademísk orðræðuhefð hefur þróast í hugvísindum.
Bergsveinn, sem skrifaði meðal annars Leitina að svarta víkingnum og Geirmundarsögu Heljarskinns, ritar grein í nýjasta hefti Skírnis þar sem hann gagnrýnir hvernig akademísk orðræðuhefð hefur þróast í hugvísindum á undanförnum áratugum.
Í greininni rekur hann hvernig hvatakerfi háskólasamfélagsins – í gegnum styrki, stigakerfi og ritrýnd tímarit – leiðir til gríðarlegrar sérhæfingar, til aðferðafræði þar sem niðurstaðan sé að mestu ákveðin fyrirfram, og útilokar skáldlegt hugarflug, huglægni og tilfinningar. Þetta leiðir til þess að akademían fjarlægist fólk flest og bregst þar með upplýsinga- og miðlunarhlutverki sínu.
„Það er ekki nein orðræða eða beint samband á milli þess sem til dæmis sagnfræðingar, heimspekingar, félagsfræðingar eru að gera og því sem að alþýða manna fær að vita um,“ segir Bergsveinn. „Spurningarnar og vandamálin sem verið verið er að vinna við eru orðin afskaplega smá. Það er krafist alveg gríðarlegrar sérhæfingar og það gerir það að verkum að það er erfitt að miðla þessu til fólks.“
Hann segir að háskólar og akademían hafi brugðist upplýsingaskyldu sinni og minnir minnir á að skattpeningar fólks fari í þessi störf. „Ástæðan fyrir því er að þú færð engan pening eða stig fyrir að skrifa um þín fræði fyrir fólk flest. Þú færð hins vegar eitthvað fyrir þinn snúð ef þú skrifar fyrir svokölluð ritrýnd vísindatímarit. Það er skrifað gríðarlega mikið af textum, og fyrir alla muni það er gert samviskusamlega og vel og af dugandi fræðimönnum, en þetta er ekki lesið af venjulegu fólki. Það eru því mjög fáir af þessum sökum sem taka að sér að miðla sínu fagi og sínum spurningum til breiðari lesendahóps. Þetta er eins konar andleg innrækt.“
Rætt var við Bergsvein Birgisson í Víðsjá á Rás 1.