Stóran hluta plastmengunar í heimshöfunum má rekja til þess fatnaðar sem við göngum í. Árlega er talið að um 500 þúsund tonn af örtrefjum úr fatnaði renni til sjávar á ári. Finnsk uppfinning gæti leyst þennan vanda. Hún felst í því að framleiða föt úr trjám.

Fatnaður hættulegur úrgangur?

Í umræðunni um mengun af völdum plasts gleymist oft að fötin sem við göngum í valda miklum skaða á umhverfinu. Sumir fullyrða að föt úr gerviefnum séu verri en sjálfur plastúrgangurinn. Í grein á vefmiðli norska ríkisútvarpsins kemur fram sú krafa að fatnaður verði skilgreindur sem hættulegur úrgangur. Norsk stjórnvöld stefna að því að banna einnota plast á næsta ári svo sem plasthnífapör, plaströr og eyrnapinna úr plasti. Hins vegar skortir stefnu um hvernig eigi að taka á textíliðnaðinum. 60% af fatnaði sem framleiddur er innihalda plasttrefjar sem berast með ýmsum leiðum í hafið. 

Talið er að 30 prósent að plasttrefjunum, sem ógna lífinu í hafinu, séu plasttrefjar sem losna úr fötum. Bæði hér og Noregi er fötum og textíl safnað saman til að endurnýta. Rauði krossinn á Íslandi úthlutar notuðum fatnaði til um 1500 einstaklinga á Íslandi og fatnaður er einnig sendur til  þróunarlanda. Það er góðra gjalda vert en það er gagnrýnt að fatnaður sé sendur til landa sem eru ekki með nútímafráveitukerfi.

Mengunarmerkingar á fötum

En sökin er ekki hjá þróunarlöndunum vegna þess að í hvert sinn sem við þvoum föt streymir örplastið úr fötunum út í sjó. Norsk stjórnvöld hafa beðið framkvæmdastjórn ESB að huga að því að setja reglur um að skylt verði að hafa síur í þvottavélum sem fanga trefjarnar áður en þær berast í hafið.

Ola Elevestuen, umhverfisráðherra Noregs, segir gott að athyglin beinist að mengun frá fatnaði. Stjórnvöld séu að undirbúa aðgerðir og það verði gert í samvinnu við textíliðnaðinn. Mikilvægast sé að meðhöndla úrganginn á réttan hátt og auka meðvitund neytenda. Það sé heldur ekki einfalt að banna innflutning á tilteknum fatnaði. Það geti gengið þvert á EES-regluverkið og reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Norska neytendaráðið vill að merkingar fylgi fatnaði sem sýni hversu umhverfisvænn hann er eða hversu miklum skaða hann getur valdið í náttúrunni. Notaðir verði litakóðar eins og gert er til að sýna orkunotkun ýmissa raftækja. Einnig eigi að upplýsa neytendur um öll efni sem notuð eru við framleiðsluna. Þetta sé mikilvægt til að neytendur geti metið fatakaupin út frá umhverfissjónarmiðum.

Verslunarkeðjan Hennes & Mauritz hefur frá 2013 safnað 75 þúsund tonnum af fötum sem eru endurunnin eða endurseld. Keðjan hefur sett sér það markmið að fyrir 2030 verði öll framleiðslan sjálfbær. H&M áætlar að um 500 þúsund tonn af plasttrefjum berist frá þvotti og þvottavélum út í hafið á ári.

Allur fatnaður mengar

En það eru ekki bara gerviefnin og fötin með plasttrefjunum sem valda mengun. Staðreyndin er nefnilega sú að allur fatnaður er skaðlegur umhverfinu. Það á við um bómull, ull og silki svo eitthvað sé nefnt. Textíliðnaðurinn er sá iðnaður sem mengar næstmest í heiminum á eftir olíuiðnaðinum. Það er áætlað að framleiðslan nemi um 100 milljónum tonna á ári á heimsvísu og að fatanotkun eigi eftir að aukast um meira en 60% fram til ársins 2030.


Við bómullarframleiðslu eru notuð um 15 til 20 prósent af öllum plöntuvarnarefnum eða skordýraeitri sem notuð eru í öllum heiminum og 10 þúsund lítra af vatni þarf til að framleiða 1 kíló af bómull. Þá er bent á að til að framleiða meðal bómullarskyrtu þurfi að nota 0,6 kíló af efnasamböndum eða efnablöndum.  

Og svo er það ullin. Áður en byrjað er að nota hana í fötin hefur átt sér stað ýmisleg losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig að það er vandlifað. Svo virðist sem erfitt sé að klæða sig án þess að vera í fötum sem ógna umhverfinu.

Finnar með lausnina?

Finnskir vísindamenn virðast hafa fundið lausn sem vert er að veita athygli. Þeir hafa fundið aðferð sem gæti verið lausn á mengunarvandanum sem tengist fataframleiðslunni.

Það eru þeir Juha Salmela og Janne Poranen sem hafa þróað aðferðina við að búa til þráð úr lífrænum efnum t.d. trjám. Juha fékk hugmyndina þegar hann sat á fyrirlestri í Oxford þar sem fjallað var um hvernig kóngulær spinna vef. Nafn fyrirtækisins  dregur nafn sitt af því og heitir Spinnovas.

Aðferðin felst í því að hvaða lífræna efni sem er úr jurtaríkinu er malað með vatni niður í örtrefjar sem kallaðar eru nanosellulósi. Úr verður massi sem líkist handáburði eða kremi. Finnsku uppfinningamennirnir hafa fundið aðferð til að vinna þráð úr þessum massa sem hægt er að nota í vefnað án þess að hvers konar efnablöndur hafi komið við sögu.

Þeir eru í Finnlandi og athygli þeirra beinist að sjálfsögðu að því að nota tré. Rannsóknir þeirra sýna að ekki virðist skipta máli hvaða trjátegund er notuð. Þeir segja líka að þeir geti hugsanlega notað úrgang frá landbúnaði eins og t.d. hálm.

Margir hafa áhuga

Það eru fjögur ár frá því að þeir Juha og Janne fóru að leita að fjárfestum. Þeir hafa þegar fengið austurrísk textílfyrirtæki til liðs við sig. Það er eftir miklu að slægjast því textíliðnaðurinn er mikill að vöxtum. Ef öll timburframleiðslan í Finnlandi væri notuð til að framleiða garn næði það aðeins að þjóna um 10% af öllum fataiðnaðinum.

Ýmsir þungavigtarmenn í geiranum hafa veðjað á þá félaga. Þar á meðal eru ýmsir fataframleiðendur, Ekki hefur verið upplýst hverjir þeir eru nema að finnski fata- og vefnaðarrisinn Marimekko er meðal þeirra.

Fyrsta verksmiðjan hóf starfsemi í desember og nú er verið að semja við fatafyrirtæki um framleiðslu. Búist er við að fjöldaframleiðsla hefjist hugsanlega á næsta ári. Janne segir að áferðin á trévefnaðinum líkist aðeins bómull og líni.