Utanríkisráðherrar Norðurlandanna samþykktu að vinna nánar saman í öryggismálum og vörnum gegn tölvuárásum á fundi sem Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin hafa verið í samstarfi um og var haldinn í Borgarnesi í dag.

Ný áætlun væntanleg í október

Fundurinn var haldinn í boði íslenskra stjórnvalda en Ísland gegnir nú formennsku í utanríkismálasamstarfi ríkjanna. Stærstu tíðindin voru í öryggis- og varnarmálum.

Samþykkt var að halda áfram samvinnu sem byggist á endurmati á tíu ára gamalli skýrslu Thorvalds Stoltenbergs um samvinnu Norðurlandanna í varnarmálum. 

„Sömuleiðis lögðum við áherslu á það, og um það var full samstaða, að í lok október komum við með nýja áætlun um framhald þeirrar vinnu, og hver muni stýra henni,“ sagði Guðlaugur Þór. 

Mikill styrkur í samvinnu milli landanna

Guðlaugur Þór segir mikinn styrk í því að þessi lönd vinni saman í varnarmálum. Þar geti samvinna við Eystrasaltsríkin komið mjög til góða, sérstaklega í netöryggismálum.

Marika Linntam, yfirmaður Evrópudeildar utanríkisráðuneytis Eistlands, sagði að þegar tölvuárás væri gerð á eina af þjóðunum, geti það haft áhrif á hinar. Því sé að sjálfsögðu þörf og áhugi fyrir samstarfi gegn slíku. 

Mikilvægt að treysta á þjóðarétt

Málefni norðurslóða voru einnig rædd, sér í lagi aukinn áhugi ýmissa þjóða á svæðinu og loftslagsmál því tengd.

„Það er gríðarlega mikilvægt að treysta á þjóðarétt og efla þær stofnanir sem við þegar höfum, eins og til dæmis Norðurskautsráðið“, sagði Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar. 

Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur sagði að það væri ágætt að aðrar þjóðir sýni norðurslóðum áhuga, „en þær verða að virða að þjóðir Norðurskautsins fara þar í forystu“.