Kolbeinn Óttarson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segir forkastanlegt að íslensk lögregluyfirvöld hafi aðstoðað við rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar á WikiLeaks-málinu án vitneskju ráðherra. Þetta sagði hann í Vikulokunum á Rás 1 í dag.

Hér má hlusta á Vikulokin í heild sinni.

Í fréttum sjónvarps í gær kom fram að lögregla hefði veitt bandarískum yfirvöldum aðstoð vegna málsins. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var ekki upplýst um málið og sagði það mjög undarlegt. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra var heldur ekki upplýst um það.

Kristinn Hrafnsson ritstjóri WikiLeaks sendi fyrirspurn um málið til ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og forsætis-, dómsmála- og utanríkisráðherra í vikunni.

Blaðamaður einungis að sinna starfi sínu

„Mér finnst algjörlega fráleitt að það sé án vitundar ráðherra verið að aðstoða við einhverja rannsókn sem að mínu viti er byggð á einhverjum fáránlegum forsendum. Þetta er risastór mál, þetta er að aðstoða FBI við rannsókn á því að blaðamaður sé að sinna starfi sínu. Það þykir mér gríðarlega alvarlegt mál,“ segir Kolbeinn.

„Það hlýtur að vera í gangi skoðun núna á því hvernig ferlarnir eru, hvernig svona lagað getur átt sér stað og svona tekið einhver ákvörðun í framhaldi um það hvað verður gert í þessu tilviki. Mér finnst þetta algjörlega forkastanlegt.“

Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins tekur undir orð Kolbeins og einkennilegt að ráðherrar hafi ekki fengið vitneskju um málið. Þingflokkur Framsóknar hafi hins vegar ekki rætt málið en hugsanlega verði það gert í næstu viku.

Aðstoð lögregluyfirvalda við bandarísku alríkislögregluna er til skoðunar segir Kolbeinn, það þurfi að rannsaka málið vandlega og kanna hvort að svona lagað geti endurtekið sig. Hann er algjörlega ósammála þeim reglum sem framfylgt var í afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á beiðni bandarískra yfirvalda.

Vernda þarf íslenska ríkisborgara

Inga Sæland formaður Flokks fólksins er sammála Kolbeini en ekki hefur verið rætt innan stjórnarandstöðunnar hvort krafist verði rannsóknar á aðkomu íslenskra lögregluyfirvalda í málinu. Skoða þurfi hvort að framganga þeirra hafi verið eðlileg miðað við stöðu Íslands sem sjálfstæðs ríkis og vernd íslenskra ríkisborgara.

„Það segir sig sjálft að við viljum ekki fá einhverja FBI vaðandi hérna inn á bomsunum og taka hér öll völd, yfirheyra okkar ríkisborgara án þess að við höfum neitt um það að segja. Við bara segjum nei.“

Hér má hlusta á Vikulokin í heild sinni.