„Þessi uppsetning á Atómstöðinni í samtali við nútímann er um margt áhugaverð, kraftmikil og spennandi þó stundum sé nánast eins og leikstjórinn og höfundur leikgerðar hafi færst of mikið í fang,“ segir Brynhildur Björnsdóttir gagnrýnandi um sýninguna Atómstöðina – endurlit í Þjóðleikhúsinu.


Brynhildur Björnsdóttir skrifar:

„Fólkið vill sinn Laxness!“ sagði vinur minn þegar hann frétti af uppsetningu Þjóðleikhússins á Atómstöðinni, einu þekktasta verki Halldórs Kiljan Laxness. Bókin er skrifuð árið 1948 á umbrotatímum í íslensku samfélagi þegar tekist er á um aðild að hernaðarbandalagi sem gæti, og átti eftir að skilgreina þjóðina bæði alþjóðlega og fyrir sjálfri sér. Verkið sem nú er á fjölum Þjóðleikhússins heitir Atómstöðin – endurlit og þar er leitast við að sviðsetja skáldsöguna í óræðum tíma á óhefðbundinn hátt í endurliti þess sem síðar gerðist og er enn að gerast í kjölfar þessarar ákvörðunar.

Það er að vissu leyti táknrænt, og sannarlega engin tilviljun að Halldór Laxness Halldórsson, barnabarn Laxness, hefur leikgerð með höndum og hann og leikstjórinn Una Þorleifsdóttir leitast við að skilja og greina verkið og alla þá fjölmörgu þræði sem um það liggja og vefa saman, gera Atómstöð sem talar við samtímann en líka þá sem vilja sinn Laxness.  

Verkið hefst á ávarpi konu sem veltir fyrir sér verðgildi bóka og skáldskapar í launfyndinni ádeilu á kapitalismann, fyrir framan járntjald sem einnig er táknrænt fyrir þá tíma sem vitnað er til. Þegar tjaldið er dregið upp blasir við hvítur kassi að innanverðu og kirkjubekkir þar sem persónurnar sitja og eru smám saman kynntar til sögunnar. Þessir kirkjubekkir eru svo færðir til og frá og mynda sögusviðið sem persónurnar leika verkið á. Þetta er kannski svolítið táknrænt fyrir það ferðalag sem lagt er upp í, við byrjum í heilagri stofnun sem síðan er hlutuð sundur og hlutirnir nýttir eftir því sem verkið þarf til að búa til eitthvað nýtt.

Verkið sjálft er vissulega Atómstöðin en Atómstöðin með neðanmálsgreinum. Í fyrri hlutanum er stöðugt verið að brjóta upp söguna til að skora verkið á hólm, fulltrúar hinna ólíku þráða verksins: ástarsögunnar, þjóðfélagsádeilunnar og heimspekilegrar guðspeki, taka orðið og takast á um merkingu verksins, hvernig atburðir gerðust, við hvað var átt þegar þetta eða hitt var rætt eða ritað og svo framvegis. Seinnin hlutinn er svo meira helgaður söguþræðinum og persónunum.

Þetta veldur því að verkið er næstum þrír tímar, eða var það allavega á frumsýningu, og það var of langt. Það er vissulega áhrifamikið á köflum og alls ekki leiðinlegt en stundum voru rökræðurnar þegar persónur breytast í málpípur eða útskýrendur tíðaranda ekki alveg nógu grípandi. Stundum er líka eins og höfundar leikgerðar þekki verkið of vel og reikni með því sama hjá áhorfendum, að allir séu búnir að pæla mikið í Atómstöðinni frá öllum hliðum, allavega nýbúnir að lesa bókina.

Ofan á þessum hugmyndafræðilegu neðanmálsgreinum er leikritið Atómstöðin svo leikið og það afar vel af sterkum leikhópi. Ebba Katrín Finnsdóttir fer með hlutverk Uglu og leysir það einstaklega vel af hendi, hún er skýrmælt, heil og sönn og heldur áhorfendum við efnið, þrátt fyrir uppbrotin. Atriðið milli hennar og hinnar ungu Aldinblóðar sem Snæfríður Ingvarsdóttir leikur var til dæmis mjög sterkt og eftirminnilegt.

Búi Árland er einnig trúverðugur í meðförum Björns Thors sem tekst vel að sýna innri togstreitu persónunnar, Frú Árland mjög brothætt og forréttindablind í meðförum Birgittu Birgisdóttur, byltingarmaðurinn sem í leikskrá heitir Piltur gekk kröftuglega fram í meðförum Snorra Engilberts og feimna löggan var einlæg og falleg hjá Oddi Júlíussyni. Organistinn var hæfilega ójarðneskur í meðförum Stefáns Jónssonar og aðrir leikarar standa sig einnig vel í minni hlutverkum.

Leikmynd Mirek Kaczmarek er skemmtileg og þjónar uppsetningunni, dýpt sviðsins er nýtt vel og hvíti liturinn á sviðinu er eins og strigi eða óskrifað blað sem þátttakendur verksins skrifa svo á með sínum hætti. Kaczmarek gerir einnig búningana sem eiga að draga fram einhvers konar tímaleysi verksins en eru fyrir vikið nokkuð furðulegir og táknmyndir fyrir einhvers konar algilda túlkun á persónunum og taka frekar frá persónunum en að styðja þær. Þetta á þó einkum við um búninga Uglu og frú Árland. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar er frábær, sterkir litir og ákveðin mynstur breyta sviðinu eftir því hvaða persóna eða þráður er í áherslupunkti og rammar einnig inn rými þegar þess þarf. Sviðsmynd og lýsing vinna vel saman í því að gæða sviðið lífi og búa til hughrif í huga áhorfandans, sem dæmi má nefna að í ákveðinni lýsingu speglast leikarararnir og senurnar í gólfinu eins og það sé vatnsyfirborð sem er afar áferðarfallegt.

Hljóðmynd Arons Þórs Arnarssonar, Kristins Gauta Einarssonar og Gísla Galdurs Þorgeirssonar er mjög vel gerð og styður vel við senurnar en ég set spurningamerki við tónlistarvalið í sýningunni þar sem leikhópurinn syngur stundum búta úr íslenskum dægurlögum héðan og þaðan sem í fljótu bragði virtust ekki vera í samhengi við sýninguna. Í verki sem þessu hefði frumsamin tónlist verið þörf og skemmtileg viðbót við uppsetninguna en einnig hefði verið hægt að taka einhver fjölmargra laga sem samin hafa verið við ljóð HKL og nota til áhersluauka eins og gert er reyndar einu sinni, með Maístjörnunni.

Þessi uppsetning á Atómstöðinni í samtali við nútímann er um margt áhugaverð, kraftmikil og spennandi þó stundum sé nánast eins og leikstjórinn og höfundur leikgerðar hafi færst of mikið í fang. Svo margt þarf að segja og mörgu að koma að að uppfærslan er eiginlega eins og reynt sé að troða doktorsritgerð um Atómstöðina inn í þriggja tíma leiksýningu. Þetta á þó einkum við um fyrri hlutann, í þeim seinni fá áhorfendur sinn Laxness í tímalausum boðskap og stílsnilld sem aldrei þverr.