Hatari er sautjánda atriðið á svið í Eurovision annað kvöld, en það sæti hefur reynst mörgum happadrjúgt. Íslensku keppendurnir hafa vakið mikla athygli fyrir gagnrýni á gestgjafana en prófessor í málefnum Mið-Austurlanda segir það Ísrael mikilvægt að sýna landið í nýju ljósi.
Það eru ekki bara leðurólarnar og latexið sem kveikt hafa áhuga á íslensku keppendunum í ár. Hatarar hafa ekki síst vakið athygli fyrir boðskap sinn, líkt og Matthías Tryggi Haraldsson, Hatari, sagði í viðtali við sænska ríkissjónvarpið, SVT.
„Það er mótsögn að það sé ópólitískt að halda keppnina hér, því það er afar pólitískt.“
Ísraelar segja hins vegar margir að loksins geti heimsbyggðin séð landið í réttu ljósi.
„Það er kominn tími til að fólk komi hingað og kynnist því sem Ísrael hefur upp á að bjóða. Ekki bara stjórnmálaátökin, stríðið og allt það. Eins og þið sjáið er menningarlíf og fjörugt tónlistarlíf og við eigum fjölmarga listamenn,“ sagði einn íbúa Tel Aviv.
Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í Mið-Austurlandafræði, segir Ísraelum það afar mikilvægt að halda keppnina.
„Fyrir Ísrael skiptir þetta gríðarlega miklu máli því þarna er verið að vekja athygli á einhverju allt öðru en Ísraelar eru mjög passasamir að vekja ekki athygli á. Fólk tengir þá núna Ísrael við skemmtun og gleði og gaman og glans. Og þá er það einmitt ekki verið að tala um þá sem búa ekki í slíku ástandi. Þá er athyglinni dreift frá hernáminu á Vesturbakkanum og á Gaza,“ segir Magnús Þorkell.
Góður árangur á tíu ára fresti
Hatari er 17 atriðið á svið annað kvöld. Það kyndir kannski von í brjósti einhverra að vita að sjö sinnum hefur atriði númer 17 unnið keppnina. Finnarnir í Lordi voru til dæmis númer 17 þegar þau unnu keppnina árið 2006 með Hard Rock Haleluja. Sex árum síðar var hin sænska Loreen sú sautjánda á svið þegar hún vann með laginu Euphoria.
Þá má velta upp þeirri staðreynd að besti árangur Íslands í keppninni hefur hingað til verið á tíu ára fresti. Fyrst árið 1999 þegar Selma Björnsdóttir lenti í öðru sæti með All out of luck og svo árið 2009 þegar Jóhanna Guðrún náði sama árangri þegar hún spurði Is it true? Hvað Hatari gerir, nú tíu árum síðar, kemur í ljós á morgun.