„Þetta er nú í flestra augum bara bílhræ, ryðguð bílhræ,“ segir Valdimar Benediktsson vélvirki sem hefur safnað gömlum bílum og vélum í nokkra áratugi. Landinn rölti með honum um safnið sem hann geymir á lóðinni við vélsmiðjuna sína, Véltækni á Egilsstöðum.
„Tilgangurinn með þessum ruslahaugi er fyrst og fremst sá að reyna að varðveita sýnishorn af fyrri tíma samgöngutækjum,“ segir Valdimar. Þetta er svona flótti undan þessum brotajárnssöfnurum sem ýmist taka allt og pressa það saman eða hakka í smástubba. 99 prósent af þessum bílum væru farnir í hakkavélarnar ef ég hefði ekki bjargað þeim.“
Valdimar hefur lengi dreymt um að koma upp einhverskonar samgönguminjasafni á Austurlandi. „Þetta verður vonandi ekki allt urðað,“ segir hann.