Sýrlenskur flóttamaður sem tók þátt í að grafa stúlku úr snjóflóði á Flateyri í síðustu viku segist aldrei geta gleymt því þegar hún fannst. Hann og fjölskylda hans eru ekki í rónni eftir flóðin.

Sýrlendingurinn Tojan Al Nashi flutti til Flateyrar ásamt konu sinni og þremur dætrum fyrir tveimur árum. Þau voru að flýja stríðið í Sýrlandi og sóttu í friðinn og öryggið á Vestfjörðum. Þeim brá hins vegar óneitanlega í brún þegar snjóflóðin féllu á þorpið í síðustu viku, en þau búa steinsnar frá þeim stað þar sem annað flóðið féll.

Gat ekki sofið

„Þessa nótt sá ég margt fólk úti,“ segir Tojan. „Ég fór út til að kanna ástandið og fólkið sagði mér að snjóflóð hefði fallið og að það hefði farið inn í hús, og að ein stelpa hefði lent undir flóðinu.“
 
Þar vísar Tojan til Ölmu Sóleyjar Ericsdóttur sem grófst undir flóðinu.

„Og ég fór strax þangað og reyndi að moka og reyndi að hjálpa. Og þegar við fundum stelpuna var hún öll blá og henni var mjög kalt. Hún grét og kallaði og henni var illt. Og ég get ekki gleymt því þegar við fundum hana. Og ég gat ekkert sofið um nóttina.“

Tojan segir að fjölskyldunni hafi liðið mjög vel á Flateyri síðan þau fluttu þangað, fólkið sé dásamlegt og þau eigi marga vini. Snjóflóðin hafi hins vegar raskað ró þeirra verulega.

„Stelpurnar mínar hafa verið hræddar síðan snjóflóðin féllu. Þær geta ekki sofið á næturnar. Ef þær heyra eitthvað koma þær fram grátandi. Ég þarf kannski bara að flytja. Það er kannski betra fyrir okkur, að flytja kannski til Ísafjarðar,“ segir Tojan.