Umhverfis- og auðlindaráðherra, sjósetti í dag flothylki úti fyrir Garðskaga af varðskipinu Þór til að sýna hvernig rusl í hafi ferðast til og frá norðurslóðum. Verkefnið tengist formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og er ætlað að auka meðvitund og þekkingu fólks á rusli í hafi.

Hylkið er hannað til að þola högg og öldugang

Hylkið sendir frá sér staðsetningarhnit og hefur sólarrafhlöðu sem ætti að endast í 5 ár. Í hylkinu sé sendir sem sendir staðsetningu tvisvar á dag til gervitungls, segir Arnór Þórir Sigfússon, sérfræðingur hjá Verkís.

„Svo er þetta í hylki sem flýtur og það er þarna í frostlögur og þetta snýr alltaf upp svo þetta getur sent staðsetninguna og fengið á sig sól á sólarrafhlöðuna. Þetta á eftir að fara í gegnum miklar öldur og getur þeyst upp í fjöru en þetta er hannað til að þola mikil högg og slæmt í sjóinn,“ sagði hann.

Dýrin telja plastið í sjónum fæðu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra sagði að verkefnið hefði hátt fræðslugildi. 

„Það sýnir okkur að það sem við erum að fleygja frá okkur, eins og plast, það berst mjög víða og endar alltof oft í hafinu þar sem það svo ýmist berst uppí fjörur eða getur brotnað niður í smærri eindir eins og örplast og sekkur þá jafnvel til botns“. 

Hann segir að þetta safnist saman í hafinu og geti valdið vandræðum þar fyrir dýralíf „Dýrin éta þetta í mistökum fyrir fæðu og finnst þau vera södd þegar þau eru það ekki og þetta getur dregið þau til dauða. Við vitum ekki nógu mikið heldur um hver áhrifin geta verið ofar í lífkeðjunni og þar með talið á spendýr og menn,“ sagði umhverfisráðherra.