Franski uppfinningamaðurinn Franky Zapata varð í dag fyrstur til að fara yfir Ermarsund á flugbretti. Zapata flaug frá Sangatte í norðurhluta Frakklands og var kominn til Dover á suðurströnd Englands tuttugu mínútum síðar. Hann flaug á allt að 170 kílómetra hraða á flugbrettinu og gekk ferðin snurðulaust fyrir sig.
Zapata flaug frá Sangatte í norðurhluta Frakklands og var kominn til Dover á suðurströnd Englands tuttugu mínútum síðar. Hann flaug á allt að 170 kílómetra hraða á flugbrettinu og gekk ferðin snurðulaust fyrir sig.
Þetta er í annað skiptið sem hann reynir að fljúga yfir Ermarsund. Zapata lenti í vandræðum í fyrri tilrauninni þegar hann hugðist taka eldsneyti á miðri leið. Hann ætlaði að lenda í bát og fylla á geyminn, en hafnaði í sjónum. Fjölmargir fylgdust með fluginu í dag.
Þá varð eiginkona Zapata að vonum ánægð þegar hún fékk þau tíðindi að eiginmaður hennar væri lentur handan sundsins. Enda hefur Franky unnið að því að þróa flugbrettið síðastliðin þrjú ár, þrátt fyrir að hafa misst tvo fingur í fyrsta tilraunafluginu.
Zapata vakti mikla athygli á hersýningu í París á Bastilludaginn 14. júlí þegar hann sveif um með riffil yfir höfðum áhorfenda. Franski herinn hefur kynnt sér uppfinninguna og hefur áhuga á að nýta sér hana í framtíðinni.