Kvikmyndin Agnes Joy var frumsýnd í gær. Myndin fjallar um brambolt fjölskyldu á Akranesi og stormasamt mæðgnasamband. „Fjölskyldan er frekar stöðnuð og komin út í horn í lífinu þegar við hittum þau fyrst. Öll frekar einmana í sinni litlu fjölskyldu í allri þessari nálægð samt,“ segir Silja Hauksdóttir leikstjóri.
Samband mæðgna er miðja kvikmyndarinnar Agnes Joy. „Aðalsöguhetjan er Rannveig og önnur aðalsöguhetjan er dóttir hennar Agnes. Þær eru líka komnar á svolítið súrar slóðir í samskiptum og svo breytist allt þeirra líf allra varanlega þegar það kemur nýr nágranni og flytur í næsta hús,“ segir Silja Hauksdóttir leikstjóri.
Donna Cruz fer með titilhlutverkið í myndinni. Þetta er hennar fyrsta hlutverk í kvikmynd, en hún er mörgum kunnug af samfélagsmiðlum og fyrir dagskrárgerð hjá Áttunni. Hún lýsir hlutverkinu þannig: „Hún er djörf og ákveðin og hún er svolítið týnd og er svona að reyna að finna sig.“
Með önnur hlutverk í myndinni fara Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Björn Hlynur Haraldsson, Ania Powazka, Þorsteinn Bachmann og Kristinn Óli Haraldsson. Handrit myndarinnar skrifa Gagga Jónsdóttir og Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir ásamt Silju.
Stutt en langt á milli
„Í upphafi sögu er auðvelt fyrir þær báðar að kenna svolítið öðru um hvar þær eru staddar en þær átta sig svo á að það er kannski ekki svo einfalt,“ segir Silja. „Fjarlægðin Reykjavík-Akranes, endurspeglar þetta dálítið vel, það er mjög stutt á milli en ef þú stendur sjálfur í vegi fyrir því þá getur það verið mjög langt. Aðeins lengra en 40 kílómetrar allavega.“
Tökur áttu sér stað á Akranesi fyrir ári. Silja segir svæðið vera kjörið fyrir kvikmyndatöku. „Það var bara yndislegt. Það er ótrúlega gott að vera hérna, hér er fallegt og fólkið var gott við okkur. Og við höfðum tíma til að einbeita okkur að því sem við áttum að vera að gera. Vera inni í þessum húsum að segja þessa sögu og skottast um göturnar að skjóta.“
Var ekki viss um að það væri staður fyrir sig á Íslandi
Að sögn Donnu voru dagarnir langir og viðburðaríkir. „Þetta var keyrsla, margir tökudagar þar sem ég þurfti að vakna fyrir fjögur eða þrjú. En samt bara ótrúlega gaman. Mig hefur alltaf langað að vera leikkona en ég var ekki alveg viss um hvort það væri einhver staður fyrir mig á Íslandi. Maður hefur ekki séð fólk af erlendum uppruna taka aðalhlutverk á Íslandi þannig að ég hugsaði að þetta væri ekkert að fara að gerast fyrir mig á Íslandi,“ segir hún.
„Sú hugsun að ég myndi fá aðahlutverk á Íslandi í íslenskri bíómynd var svo „far off“ að þegar Gagga hafði samband þá hélt ég að þetta væri fyrir eitthvað svona auka og var ekkert að stressa mig yfir því. En um leið og ég fékk handritið í hendurnar og byrjaði að lesa og þær útskýrðu fyrir mér að þetta væri aðalhlutverkið þá fékk ég bara „umm, afsakið, ha, nei?“ Svo bara gerðist þetta og ég er ógeðslega hamingjusöm.
Aðspurð til hverra sagan höfði helst segir Silja: „Ég held að þessi mynd sé dálítið nýtileg fyrir þá sem hafa einhvern tímann prófað að vera í fjölskyldu og líka fyrir þá sem hafa átt foreldra eða jafnvel börn. Og svo ef við þrengjum þetta aðeins þá fyrir manneskjur sem hafa átt dætur eða mæður.“