Sífellt fleiri túlípanaakrar eru nú afgirtir í Hollandi. Ástæðan er sú að ljósmyndaglaðir ferðamenn skilja í auknu mæli eftir brotna blómastilka og úttöðkuð engi eftir að hafa freistað þess að ná góðum sjálfsmyndum með túlípönunum.

Túlípanar eru af mörgum taldir táknmyndir Hollands, ásamt kannski tréklossum og vindmyllum. Það kemur því líklega fáum á óvart að ferðamenn skjalfesti margir ferðalög sín til Hollands með eins og einni sjálfsmynd með túlípönum.

Það er reyndar orðið svo vinsælt að túlípanaræktendur þurfa nú margir að girða af akra sína til að verjast ágangi snjallsímavæddra ferðamanna. Þeir leggja nefnilega margir ýmislegt á sig til að ná hinni fullkomnu ljósmynd með túlípönunum. 

Sumir stökkva um akrana og biðja samferðamenn að smella af myndum. Aðrir leggjast útaf í blómahafið og reyna að ná þar góðri sjálfsmynd umkringd blómum. Þannig skilja þau mörg eftir sig niðurtraðkaða akra og brotna blómastilka, sem túlípanaræktendum þykir eðlilega miður.

Í samtali við Guardian segir blómabóndinn Simon Pennings til að mynda að tjónið sem túlípanaræktun hans hafi orðið fyrir á síðasta ári telji rúma milljón íslenskra króna. 

Ræktendur vilja þó gjarnan koma til móts við myndaglaða ferðamenn, en biðla til þeirra að taka myndir við túlípanaakrana, en ekki á þeim miðjum.